Arion banki hefur eignast allt hlutafé í TravelCo hf. og hyggst finna félaginu nýja framtíðareigendur svo fljótt sem auðið er, en TravelCo var stofnað í kjölfar falls Primera Air og rekur ferðaskrifstofur á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.
Í tilkynningu frá bankanum segir að aðeins sé um að ræða breytingu á eignarhaldi en að dagleg starfsemi og þjónusta ferðaskrifstofanna haldist óbreytt.
„Markmið Arion banka er að tryggja áframhaldandi starfsemi ferðaskrifstofanna og hagsmuni bankans,“ segir í tilkynningunni. Starfsemi TravelCo á Íslandi hefur farið fram undir merkjum ferðaskrifstofanna Heimsferða og Terra Nova.
Í tilkynningu bankans er haft eftir Andra Má Ingólfssyni, stofnanda TravelCo og fyrrverandi stærsta hluthafa félagsins, að þetta séu bæði tímamót fyrir hann persónulega og félagið.
„Mér er efst í huga þakklæti til alls þess frábæra starfsfólks sem ég hef starfað með og hefur tekið þátt í uppbyggingu félagsins á undanförnum árum. TravelCo er eitt öflugasta fyrirtæki Norðurlanda á sviði ferðaþjónustu og ég óska félaginu og starfsfólki þess alls hins besta í framtíðinni sem ég veit að verður björt,“ er sömuleiðis haft eftir Andra.