Gagnrýnir afskipti Ragnars Þórs harðlega

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir Ragnar Þór Ingólfsson …
Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir Ragnar Þór Ingólfsson formann VR ekki hafa neitt boðvald yfir þeim sem VR tilnefnir í stjórn sjóðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér þykir þessi atburðarás vægast sagt mjög hryggileg, ef ég á að segja eins og er. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, rétt eins og Samtök atvinnulífsins, er bakland sjóðsins og þeir sem eiga að standa vörð um hann en ekki gera aðför að stjórninni eins og þarna var gert að hálfu VR,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) og stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða.

Hún segist í samtali við mbl.is harma þá ákvörðun sem fulltrúaráð VR tók í kvöld, um að afturkalla umboð fjögurra stjórnarmanna sem tilnefndir eru af stéttarfélaginu í átta manna stjórn sjóðsins og skipa nýja í þeirra stað.

„Þau afskipti sem að sérstaklega formaður stjórnar VR hefur haft af stjórn LV eru með öllu óásættanleg og gagnrýni ég það harkalega. Ég vil minna á það að allir þeir sem setjast í stjórnir félaga, hvort sem það eru félagasamtök eða skráð hlutafélög eða önnur, lúta öll umboðsskyldu við hluthafa sem lýtur að því að við erum öll sjálfstæð í okkar störfum og við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum hlaupa á eftir duttlungum fólks úti í bæ sem vill ráðskast með þær niðurstöður sem koma frá þessum stjórnum,“ segir Guðrún.

Fjármálaeftirlitið geti ekki setið hjá

„Ragnar Þór hefur ýjað margoft að því að ef að þetta og hitt verði ekki gert, þá muni hann skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðnum og nú er það að raungerast. Ég sé ekki hvernig Fjármálaeftirlitið ætlar að sitja hjá í þessum málum, því að þarna er utanaðkomandi aðili farinn að vasast í ákvörðunum stjórnar sem að hann hefur ekkert vald til að gera. Hann hefur ekki boðvald gagnvart stjórnarmönnum sem að hann skipar í þessa stjórn, það er alveg á hreinu,“ segir Guðrún.

Hún bætir því við að hún telji að Ragnar Þór sé, með því að gera vaxtahækkun í einum lánaflokki af mörgum hjá sjóðnum að „stórmáli“, að grípa tækifæri til þess að skipta út fólki úr stjórn lífeyrissjóðsins sem hefur „ekki verið strengjabrúður í hans vegferð“.

Ólafur Reimar Gunnarsson fráfarandi formaður LV hefur ákveðið að segja sig frá öllum trúnaðarstörfum innan VR í kjölfar ákvörðunar fulltrúaráðsins í kvöld og sagði vinnubrögð Ragnars Þór og meirihluta stjórnar VR vera „forkastanleg“.

Harmar að vegið sé að heiðri fólks

„Ég vil ítreka það að stjórn var einhuga í þessu máli og stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur núna í rúm þrjú ár verið skipuð eins og ber að jöfnu fjórum einstaklingum fulltrúum frá atvinnurekendum og fjórum frá launþegum. Stjórn hefur unnið vel saman, það hefur verið góður starfsandi innan stjórnar, við höfum tekist á en við höfum í næstum öllum málum komist að niðurstöðu,“ segir Guðrún og bætir því við að allir sem starfað hafi í stjórninni hafi rækt störf sín af miklum heilindum.

„Ég harma það mjög að það sé vegið að heiðri fólks með þessum hætti sem að stjórn VR hefur gert núna. Við höfum í öllum okkar störfum starfað með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi og þeir eru yfir 170.000 talsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK