Óðum styttist nú í að Garðbæingar eignist sinn fjórða veitingastað, en ekki eru mörg ár síðan eini matsölustaðurinn sem íbúar í bænum gátu sótt var veitingastaður IKEA við Kauptún. Nýjasta viðbótin í veitingahúsaflóru bæjarins er staður sem er að rísa við Arnarnesvog, nánar tiltekið við Ránargötu 4, skammt frá Sjálandsskóla. Stendur veitingastaðurinn á 4.000 fermetra sjávarlóð.
Rekstraraðili nýja veitingastaðarins, Stefán Magnússon, sem rekur Mathús Garðabæjar og opnaði nýlega steikhúsið Reykjavík MEAT, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að stefnt sé að því að opna staðinn fyrir næstu jól.
„Þetta er mestmegnis veislusalur sem getur tekið á móti 3-400 manns í árshátíðir t.d., en einnig er þarna einkafundaherbergi fyrir minni hópa. Svo verður veitingahús sem tekur um 100 manns í sæti. Við munum einnig starfrækja hágæða kaffihús yfir daginn og bjóða upp á mat í hádeginu og á kvöldin,“ segir Stefán.
Sjá má fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum.