Sameining SÍ og FME samþykkt

Alþingi hefur samþykkt að sameina Seðlabanka Ísland og Fjármálaeftirlitið í …
Alþingi hefur samþykkt að sameina Seðlabanka Ísland og Fjármálaeftirlitið í þágu fjármálastöðugleika. mbl.is/Golli

Alþingi samþykkti í dag lög sem sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið og verða stofnanirnar sameinaðar frá næstu áramótum. „Breytingar eru ekki gerðar á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð þessara tveggja stofnana heldur lúta breytingarnar að sameiningu verkefna hjá einni stofnun,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Sameiningin er sögð vera gerð „í ljósi aukins vægis fjármálastöðugleika.“

Þá mun forsætisráðherra skipa seðlabankastjóra til fimm ára í senn að hámarki tvisvar sinnum auk þriggja varaseðlabankastjóra einnig til fimm ára í senn að hámarki tvisvar. Einn varaseðlabankastjóranna leiðir málefni er varða peningastefnu, einn fjármálastöðugleika og einn fjármálaeftirlit.

Valdbeiting í höndum nefnda

Seðlabankastjóri mun annast rekstur og stjórnun bankans og verða sumar ákvarðanir í höndum seðlabankastjóra ásamt varaseðlabankastjórum. Varaseðlabankastjórar hafa faglega umsjón með vinnu bankans á sínum sérsviðum og bera ábyrgð á undirbúningi vinnu fyrir nefndir bankans.

Ákvarðanir um beitingu tiltekinna valdheimilda bankans eru teknar af peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd. Fyrrnefndar nefndir eru samsettar bæði af embættismönnum og utanaðkomandi sérfræðingum.

Langan aðdraganda

Samkvæmt lögunum mun bankaráð Seðlabankans hafa eftirlit með því að bankinn starfi í samræmi við þau lög sem um  starfsemina gilda. Í bankaráði sitja sjö manns sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþingi.

„Lagasetning þessi á sér langan aðdraganda. Samspil peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits hefur verið mjög til umræðu í kjölfar fjármálaáfallsins 2008. Stjórnvöld hafa fengið ráðgjöf frá mörgum sérfræðingum á undanförnum árum um þetta viðfangsefni,“ segir á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK