„Ég held að þegar helstu lobbýistar hagsmunafla atvinnulífsins eru farnir aðskipta sér af því hvernig við kjósum í stjórn lífeyrissjóðsins, undirstrikar það að við erum á hárréttri leið,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er hann er inntur álits á viðbrögðum atvinnurekenda við ákvörðun VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
„Ekki höfum við verið að skipta okkur af því hvaða fulltrúa Félag atvinnurekenda eða Samtök atvinnulífsins skipa þar inn. Við erum í fullum rétti að gera þetta, reglurnar eru alveg kýrskýrar. Fulltrúaráð VR má afturkalla umboð stjórnarmanna hvenær sem það vill, það eru reglurnar sem við höfum og það er enginn ágreiningur um það innan okkar raða,“ segir formaðurinn
Hann segir jafnframt málið ekki vera afstaða sem tengist aðeins hans eigin persónu. „Þetta er öll stjórnin og fulltrúaráðið sem að skipar 25 einstaklingum, það mættu 24 á fundinn í gær og 20 voru samþykkir, tveir sátu hjá og tveir voru á móti. Þannig að það er mikil og breið samstaða innan okkar raða.“
Ragnar Þór segir þetta „ekki fyrsta skipti sem Samtök atvinnulífsins reyna að hafa áhrif á það hvernig verkalýðshreyfingin skipar í fremstu sveit stjórnar lífeyrissjóðakerfisins. Enda hefur þetta kerfi – því miður – verið rekið á forsendum fjármálakerfisins og atvinnulífsins svo áratugum skiptir. Ég reikna með því að með nýrri forystu í verkalýðshreyfingunni, almennt, verði breyting þar á.“
„Kjarni málsins er vaxtahækkun sjóðsins sem stendur enga skoðun. Markaðsvextir hafa farið lækkandi sannanlega, fyrir því eru tölulegar staðreyndir. Sjóðurinn var bara að hækka vegna þess að honum fannst það,“ staðhæfir formaðurinn.
Hann spyr hvort atvinnurekendur hafi stundað blekkingar við gerð lífskjarasamninganna í vor. „Vitandi það og haft vitneskju um að staðið til í heilt að hækka lægsta lánaflokkinn.
Hann gefur lítið fyrir fullyrðingar um að með ákvörðun sinni hafi VR vegið að sjálfstæðis stjórnarinnar með óeðlilegum hætti. „Við erum búin að álykta um það á ASÍ þinginu að beita okkur innan lífeyrissjóðskerfisins meðal annars til þess að vinna gegn kaupréttarsamningum, ofurlaunum og bónusum hvers háttar,“ svarar Ragnar Þór.
„Síðan ályktuðum við á síðasta þingi um einmitt það að lækkun vaxta á skuldabréfum og markaðsvaxta skili sér til almennings, sem við erum að krefja sjóðinn um að gera en í staðinn ákveður hann að hækka vexti,“ segir hann.
„Þannig að ég blæs á þessa gagnrýni og segi eins og ég hef oft sagt áður, komandi frá félagsskap atvinnurekenda er gagnrýni á okkar störf meira hrós heldur en last.“