Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, hafa undirritað samning um raforkukaup Isavia. Samningurinn er gerður í kjölfar útboðs þar sem HS Orka var lægstbjóðandi.
Samningurinn gildir næstu fjögur árin með heimild til framlengingar tvisvar sinnum um tvö ár í senn, þannig að heildarsamningstími getur orðið átta ár, að því er Isavia greinir frá.
„Með samningnum nær Isavia fram hagræði í raforkukaupum ásamt því að hann er liður í að minnka kolefnisfótspor Isavia þar sem gerð er krafa um að öll keypt raforka sé endurnýjanleg,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningunni.
„Hægt verður að kalla eftir uppruna- og hreinleikavottorði hvenær sem er á samningstíma,“ bætir hann við.