Gunnlaugur Snær Ólafsson
„Ég tel að þetta sé mikil óheillaþróun og við erum að skoða þetta mál núna eins og sakir standa,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, inntur álits á stöðunni í stjórn Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
„Ef marka má fréttir þá munu koma einhver viðbrögð frá Fjármálaeftirlitinu og við munum ekki tjá okkur fyrr en það hefur komið fram,“ segir hann.
Fulltrúaráð VR hefur ákveðið að afturkalla umboð þeirra sem félagið skipar í stjórn sjóðsins vegna ákvörðun stjórnarinnar um að hækka vexti á verðtryggðum lánum. Þá hefur Ólafur Reimar Pétursson, stjórnarmaður í VR og fráfarandi stjórnarformaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sagt skilið við stéttarfélagið.
Auk Samtaka atvinnulífsins skipar Kaupmannasamtök Íslands, Samtök iðnaðarins, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands í stjórn lífeyrissjóðsins.
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, Ólafur Stephensen, sagði við mbl.is í morgun að staðan sé ekki góð og „hæpið að þetta standist lög og samþykktir sjóðsins.“