Skoða lögmæti ákvörðunar VR

Átök eru um stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna
Átök eru um stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna mbl.is/Eggert Jóhannesson

„FME er búið að hafa samband við mig og telur að við sitjum áfram í stjórninni þar til stjórnarfundur hafi verið haldinn hjá VR. Maður kærir sig auðvitað ekki um að sitja í óþökk fólks en það er alvarlegt ef verið er að brjóta lög,“ segir Ólafur Reimar Gunnarsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær ákvað fulltrúaráð VR að afturkalla umboð fjögurra stjórnarmanna stéttarfélagsins í Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Spurningar hafa vaknað um lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðsins. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru nokkrir aðilar að skoða lögmæti ákvörðunarinnar. Komið hefur fram að Fjármálaeftirlitið skoðar nú stjórnarskiptin. Hafa fulltrúar FME rætt við Ólaf Reimar og Guðrúnu Hafsteinsdóttur, varaformann stjórnar. Ólafur kveðst telja að FME vinni að greinargerð um málið en það fékkst ekki staðfest í gær. Þá segir Ólafur að fráfarandi stjórn hafi leitað álits lögfræðings. Það liggi vonandi fyrir í næstu viku.

Guðrún Hafsteinsdóttir segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að lögfræðingur Lífeyrissjóðs verslunarmanna væri að skoða réttmæti ákvörðunarinnar. „Ég get einnig staðfest að við erum að láta óháðan sérfræðing í félagarétti skoða hvort hægt sé að gera þetta með þessum hætti sem gert var.“

„Fullkomlega lögleg“ aðgerð

„Fjármálaeftirlitið hlýtur að eiga að haga sínu eftirliti þannig að hagsmunir neytenda séu varðir. Þegar það bregst, eins og nú er raunin, stígum við inn og látum til okkar taka,“ sagði í yfirlýsingu frá VR í gær. Yfirlýsingin er svar við „föðurlegri áminningu“ FME til VR um að stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum sé óheimilt að beita sér fyrir því að sjóðirnir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem skýrt er frá í lögum. VR telur að aðgerðin hafi verið „fullkomlega lögleg“. Ennfremur sagði að áhersla hefði verið lögð á vaxtalækkun í nýgerðum lífskjarasamningum sem í fælist mikil kjarabót. „Þegar stjórnarmenn VR í lífeyrissjóðnum standa að ákvörðun sem gengur þvert gegn þessari sátt og mikilvægu stefnu VR og hækkar vexti á íbúðalánum, þrátt fyrir að vextir á markaði hafa lækkað, situr VR ekki þögult hjá,“ sagði í yfirlýsingu VR.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK