Fyrir um mánuði varð Örvar Smárason tónlistarmaður var við skilti á Laugarveginum sem gaf til kynna að þar skyldi opna nýr kebabstaður. Hann varð spenntur. Hann beið óþreyjufullur. Svo fór hann erlendis í smá stund og fór að hugsa um annað.
En þegar hann kom aftur heim var allt í einu búið að opna staðinn. Shawarma King. Og viti menn: „Þetta er akkúrat það sem hefur vantað á þetta svæði í marga áratugi. Ég skil bara ekki að þetta hafi ekki komið fyrr,“ segir Örvar, sem sjálfur býr á Njálsgötu.
Óheimskur maður kynni að láta svo um mælt að Shawarma King væri að fá konunglegar viðtökur.
Örvar er í skýjunum með nýja staðinn.
„Þetta er æðislegur, klassískur kebabstaður,“ segir Örvar og leggur sérstaka áherslu á klassískur. „Falafelið er æðislega gott og húmmusinn frábær. Svo eru þeir líka með þetta klassíska, Shawarma,“ segir Örvar og jú, Shawarma King ber þannig nafn með rentu. Shawarma er vel að merkja þunnskorna kjötið sem maður sér á kebabstöðum.
Örvar hefur sjálfur búið í Kaupmannahöfn og Berlín, hann starfar sem tónlistarmaður, og hann telur Ísland hafa helst úr lestinni í kebabmálum. „Það þyrftu eiginlega bara að vera svona staðir í hverju einasta hverfi. Við vorum orðin eina borgin í Evrópu sem var ekki með þetta,“ segir hann.
Eftir því sem mbl.is kemst næst eru það Sýrlendingar sem reka staðinn en engu verður slegið á fast með það. Örvar er ekki með það á hreinu sjálfur en hitt er hann viss um, að gæðin eru fyrir hendi. „Ég get vottað fyrri gæði matarins. Og svo voru þau líka bara á kafi, það var nóg að gera þarna,“ segir Örvar.
Shawarma King er á Laugavegi á kaflanum á milli Snorrabrautar og Barónsstígs, sem sé númer 87, þar sem Sautján var áður fyrr. Nú eru það ferðamannabúðir og önnur verslun.
Á Twitter hafa menn tekið undir einskæra ánægju Örvars: