Gjafakort líklega tapað fé

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Erfitt er að fá eitthvað greitt upp í inneignanótur eða gjafakort frá Tölvuteki sé rekstrarstöðvun félagsins sökum gjaldþrots. „Við höfum í gegnum tíðina varað við gjafakortum einmitt út af þessu. Frekar að gefa peninga eða seðla,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.

Tölvutek tilkynnti á Facebook-síðu sinni í dag að fyrirtækið væri hætt rekstri. Í færslunni eru viðskiptavinir sem hafa greitt með greiðslukorti en ekki fengið afhenta vöru hvattir til þess að stöðva greiðslurnar.

Spurður hvort þetta bendi til þess að um gjaldþrot sé að ræða svarar Breki: „Það hefur ekki verið birt ástæða rekstrarstöðvunar, en gera má ráð fyrir að stefni í þrot og að fyrirtækið með einhverjum hætti verði gert upp.“

Gjafakortin áhætta

Í þeirri stöðu verða þeir sem hafa keypt gjafakort eða búa yfir inneignanótum að lýsa almennum kröfum í þrotabú félagsins eftir að úrskurðað hefur verið að taka félagið til gjaldþrotaskipta, útskýrir Breki.

Hann segir það ekki tryggja að nokkuð fáist greitt, enda velti það á hvaða eignir séu í búinu og hvort eitthvað sé eftir þegar forgangskröfur hafa verið gerðar upp. Nokkuð einfaldara sé að stöðva greiðslur sem gerðar eru með greiðslukorti og er hægt að finna eyðublöð á vef greiðslumiðlunarfyrirtækjanna.

Ekki er óalgengt að sala á gjafakortum og inneignum fari fram á síðasta dag rekstur óháð þeirrar áhættu sem það felur í sér fyrir neytendur og þess vegna eru þau kaup varhugaverð, að sögn Breka.

Spurður hvert fólk á að leita sem hefur spurningar, segir Breki Tölvutek hafa sagst ætla að reyna að svara öllum skilaboðum sem sendar eru fyrirtækinu á Facebook, en einnig sé hægt að senda Neytendasamtökunum tölvupóst. „Við veitum líka svör og stöndum við bakið á neytendum í öllum þeirra réttmætu kröfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK