Bandaríska líftækifyrirtækið AbbVie hefur gert samkomulag við hluthafa Allergan, framleiðanda botox, um að kaupa félagið á 63 milljarða Bandaríkjadala. Kaupverðið er um 45% hærra en lokaverð Allergan á markaði í gær. Actavis keypti Allergan á 70,5 milljarða Bandaríkjadala árið 2014.
Lyfjafyrirtækið Watson keypti Actavis árið 2012 og sameinuðust fyrirtækin undir nafni Actavis. Björgólfur Thor Björgólfsson var aðaleigandi Actavis á þeim tíma en langstærsti hluti kaupverðsins fól í sér endurgreiðslu á lánum.
Fljótlega eftir samruna við Watson, eða árið 2014, gerði Actavis tilboð í Allergan, sem er hvað þekktast fyrir framleiðslu fegrunarlyfsins Botox, og runnu fyrirtækin saman í kjölfarið undir nafni Allergan. Ári seinna keypti svo Teva samheitalyfjahlutann af Allergan.
Samkvæmt upplýsingum frá AbbVie verður lokið við kaupin á írska félaginu á næsta ári en greitt er fyrir Allergan með reiðufé og hlutabréfum í AbbVie. Sameinað félag verður með um 48 milljarða Bandaríkjadala í veltu á yfirstandandi rekstrarári.
AbbVie hefur einkum starfað á sviði ónæmisfræði, krabbameinslækningum, veirufræði og taugavísindum en Allergan er best þekkt fyrir framleiðslu á bótox.