Tveir framkvæmdastjórar láta af störfum hjá Íslandspósti í dag og verða þeir nú þrír í stað fimm. Birgir Jónsson, sem tók nýlega við starfi forstjóra fyrirtækisins, tilkynnti starfsfólki um þessar breytingar og fleiri á starfsmannafundi núna í morgun, en breytingarnar eru liður í endurskipulagningu fyrirtækisins.
Fjármál Íslandspósts hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri, en skýrsla Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst er nú til kynningar á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og verður gerð opinber eftir að fundi lýkur.
Birgir staðfestir í samtali við mbl.is að þau Anna Katrín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs, og Tryggvi Þorsteinsson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs, láti af störfum samfara aðgerðum fyrirtækisins.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Íslandspósti að megintilgangur breytinganna sem fyrirhugaðar eru sé að setja þjónustu Íslandspósts í forgang og þá sérstaklega stafræna þjónustu. Skipurit fyrirtækisins er einfaldað, til þess að hraða ákvarðanatöku, tryggja betra upplýsingaflæði og auðvelda innleiðingu breytinga í fyrirtækinu.
„Lykilþættir í umbreytingu hjá Íslandspósti verða dregnir fram í skipuriti þar sem upplýsingatækni, mannauðsmál, viðskiptaþróun og stafræn þjónusta verða að sérstökum einingum sem starfa þvert á rekstrarsviðin undir nýju þróunarsviði sem forstjóri leiðir,“ segir í tilkynningunni.
Íslandspóstur stefnir einnig á flutninga úr núverandi húsnæði sínu á Stórhöfða og yfir í skrifstofurými í Höfðabakka 9. Birgir segir að það sé mikilvægt mál, bæði sé verið að lækka kostnaðinn og skapa meiri liðsheild, með því að flytja skrifstofustarfsemina í opnara rými.
Hann segir núverandi vinnurými frekar lokað, en að það muni breytast með flutningunum, sem fyrirhugaðir eru í október.
„Það er alveg ljóst að það þarf að skera niður kostnað og hagræða á öllum sviðum og undirbúa fyrirtækið undir nýja tíma,“ segir Birgir við blaðamann.