Flestar hagspár gera ráð fyrir því að það verði viðskiptaafgangur á árinu og fátt gefur til kynna í helstu hagstærðum að tilefni sé til þess að krónan veikist enn frekar. Þetta segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpsþætti Morgunblaðsins í dag.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kom fram að verðbólga væri enn sem komið er í samræmi við spá Seðlabankans, hún væri búin að ná hámarki og myndi hjaðna í átt að markmiði þegar líður á árið. „Frekari lækkun gengis krónunnar gæti þó sett strik í þann reikning,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.
„Mér sýnist flestar hagspár gera ráð fyrir því að það verði viðskiptaafgangur. [...] Mér finnst fátt gefa til kynna í hagstærðunum að það sé tilefni til þess að krónan veikist frekar. En hins vegar eru flæðistærðir, þegar fjárhæðir streyma inn og út úr landinu, sem gerist yfir skemmra tímabil, slíkt flæði getur skapað veikingu annars vegar umfram jafnvægisraungengi, eða styrkingu, sem snýr þá í hina áttina. Sú þróun mun halda áfram. En með gjaldeyrisforðann eins og hann er og með markmið Seðlabankans um að halda aftur af skarpri veikingu krónunnar, þá sé ég ekkert í spilunum að við séum að fá mikla veikingu áfram. Ég sé ekki hagstærðirnar endilega styðja það,“ segir Stefán Broddi í Viðskiptapúlsinum.
Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur í dag og eru meginvextir bankar því 3,75%. Lækkunin kom Stefáni Brodda ekki á óvart.
„Niðurstaðan kemur ekki á óvart en ég held samt að væntingar einstakra aðila á markaði hafi verið þær, það var ekki þannig að það hafi verið viðtekin skoðun, að mögulega yrði lækkunin meiri og þá hugsanlega að tónninn yrði enn þá mildari og meira í áttina að frekar vaxtalækkunum en kannski má lesa úr yfirlýsingunni að þessu sinni,“ segir Stefán Broddi.
Seðlabankastjóri ýjaði að því á fundinum í morgun að það hefði mögulega verið ástæða fyrir Seðlabankann að grípa inn í með afgerandi hætti í tengslum við útboð Marels samhliða skráningu félagsins í kauphöllina í Amsterdam.
„Það er tiltölulega nýtilkomið að gjaldeyrisforðinn sé af þeirri stærð og af þeim toga að Seðlabankinn geti haft svona afgerandi áhrif á gengi krónunnar. Seðlabankinn er að feta sig áfram með það hvernig hann ætlar sér að beita forðanum. Þetta er eitt af þeim stjórntækjum sem hann er kominn með og hann hefur hingað til beitt sér gagnvart tilteknu flæði í tiltekna átt. Hann hefur beitt sér til þess að mæta útflæði vegna aflandskróna og beitti sér svo sannarlega í tengslum við afnám hafta, þegar menn voru á kafi í því ferli. Til lengri tíma litið, ef við lítum á forðann, hann er mjög stór, hann er svo sannarlega tæki sem mun milda höggið og ég held að smám saman að innlendir fjárfestar og kannski ekki síður erlendir fjárfestar, líti á gjaldeyrisforðann og þessa hreinu erlendu eignastöðu sem hefur byggst sem svona stærð sem endurspeglar og undirstrikar enn frekar hvað hagkerfið er á allt öðrum stað en við höfum upplifað alltaf í fortíðinni,“ segir Stefán Broddi.
Hlusta má á 13. þátt Viðskiptapúlsins hér að ofan. Þá má einnig nálgast þáttinn í gegnum helstu podcast-veitur hjá Itunes, Spotify og Google Play.