Hæstiréttur hefur ómerkt úrskurð Landsréttar sem hafnaði í síðasta mánuði kröfum ALC um að fá afhenta farþegaþotu í eigu fyrirtækisins sem WOW air hafði haft til umráða. Hefur Hæstiréttur vísað málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Umrædd þota hefur staðið á Keflavíkurflugvelli og hefur verið þar allt frá falli flugfélagsins í lok mars.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að í hinum kærða úrskurði hafi í verulegum atriðum verið vikið frá réttri meðferð málsins. „Er því óhjákvæmilegt án kröfu að ómerkja úrskurðinn og vísa málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir,“ segir í dómnum, en upphæðin nemur einni milljón kr.
Málið snýst um það hvort Isavia hafi verið heimilt að taka veð í farþegaþotunni vegna vangoldinna gjalda WOW air upp á um 2 milljarða króna eða hvort einungis hafi verið hægt lögum samkvæmt að krefjast þeirra gjalda sem beinlínis tengjast notkun þotunnar.
ALC byggði beiðni sína um kæruleyfi á því að úrskurður Landsréttar væri bersýnilega rangur þar sem Isavia hefði ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð héraðsdóms í málinu endurskoðaðan í heild.
Þá vísuðu lögmenn ALC til þess í málskotsbeiðninni að það hefði almennt gildi fyrir flugrekendur og eigendur loftfara að fá úr því skorið hvort niðurstaða Landsréttar um skýringu 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 væri rétt.
Umsókn ALC um kæruleyfi var tekin til greina þar sem talið var að úrlausn um þessi tvö atriði myndi hafa fordæmisgildi.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram, að Isavia hefði fyrir Landsrétti krafist þess að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur um annað en málskostnað en ALC hefði aðallega krafist þess að málinu yrði vísað þaðan frá dómi og til vara staðfestingar úrskurðarins. Í hinum kærða úrskurði hafnaði Landsréttur aðalkröfu ALC en tók að því búnu til endurskoðunar forsendur úrskurðar héraðsdóms sem var svo staðfestur að niðurstöðu til.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ef ALC hefði jafnframt kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti til Landsréttar og krafist þess að breytt yrði niðurstöðu hans, hefði orðið að taka úrlausn héraðsdóms um einstakar málsástæður aðilanna til endurskoðunar eftir þeirri meginreglu sem fælist í lögum um meðferð einkamála. Að samþykki málsaðili dómkröfur sem gagnaðili beini að honum verði ekki í dómsúrlausn tekin afstaða til málsástæðna að baki viðkomandi kröfu eða hluta hennar heldur verði niðurstaða reist á samþykki einu og sér.
Í skilningi fyrrefnds ákvæðis fólst í varakröfu ALC fyrir Landsrétti samþykki á þeim þætti í dómkröfum Isavia sem laut að staðfestingu úrskurðar héraðsdóms um að synja ALC um heimild til aðfarargerðar. Hefði því Landsrétti borið að verða við kröfu Isavia og staðfesta niðurstöðu úrskurðarins um þetta atriði án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda fyrir henni og leysa einvörðungu úr ágreiningi aðilanna um málskostnað.
Var því talið að með hinum kærða úrskurði hefði í verulegum atriðum verið vikið frá réttri meðferð málsins og því óhjákvæmilegt án kröfu að ómerkja úrskurðinn og vísa málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar, sem fyrr segir.