Salan á Icelandair hotels á lokametrunum

Meðal hótela Icelandair hotels er Hótel Marina.
Meðal hótela Icelandair hotels er Hótel Marina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lokasamningaviðræður eiga sér nú stað vegna fyrirhugaðrar sölu Icelandair group á dótturfélaginu Icelandair hotels. Skjalagerð er enn í gangi, en stefnt er að undirritun kaupsamnings eigi síðar en 16. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar frá Icelandair group.

Í tilkynningunni er greint frá því að gert sé ráð fyrir því að Icelandair group muni áfram eiga 25% í hótelkeðjunni og tengdum fasteignum eftir söluna, en áður hafði komið fram að horft væri til þess að Icelandair myndi eiga 20%.

Frekari upplýsingar um viðskiptin verða opinberuð við undirritun kaupsamningsins, en Viðskiptamogginn greindi frá því í maí að dótturfélagi malasíska fjárfestingafélagsins Berjaya Corporation væri á bak við kaupin. Stofnandi þess er hinn 67 ára gamli Vincent Tan, malasísk­ur auðkýf­ing­ur sem vakið hef­ur mikla at­hygli á síðustu árum í kjöl­far kaupa hans á enska fót­bolta­fé­lag­inu Car­diff City. Þetta eru ekki einu viðskipti félaga Tan á Íslandi, en í febrúar sendi dótturfélag Berjaya Corporation frá sér tilkynningu um að það væri að að ganga frá ríf­lega 1,6 millj­arða króna kaup­samn­ingi á fast­eign­inni á Geirs­götu 11 í Reykja­vík, sem verið hef­ur í eigu fé­laga Guðmund­ar Kristjáns­son­ar, for­stjóra HB Granda. 

Fé­lagið rek­ur 13 hót­el. Það eru: Reykja­vík Natura, Reykja­vík Mar­ina, Hilt­on Reykja­vík Nordica, Canopy Reykja­vik | City Centre, Reykja­vík Konsúlat Hót­el og Hót­el Alda. Á lands­byggðinni eru Icelanda­ir hót­el á Ak­ur­eyri, við Mý­vatn og á Héraði. Einnig eru sér­leyf­is­hót­el á Flúðum, Hamri og í Vík. Icelanda­ir hót­el reka einnig sum­ar­hót­elkeðjuna Hót­el Eddu, með tíu hót­el um land allt. Um er að ræða alls 1.937 her­bergi á land­inu öllu, 876 í Reykja­vík og 450 her­bergi á lands­byggðinni í rekstri allt árið en þar að auki 611 Eddu hót­el­her­bergi í sum­ar­rekstri. Þá stefna Icelanda­ir Hotels að opn­un nýs hót­els við Aust­ur­völl í sam­starfi við Hilt­on árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK