Vinnsla rafmyntarinnar bitcoin í heiminum notar nú næstum þrefalt það rafmagn sem framleitt er á Íslandi. Þetta má lesa út úr nýrri rannsókn Cambridge-háskóla í Bretlandi, en þar kemur fram að ársraforkunotkun vegna bitcoin er metin á 54 TW-stundir, um 0,21% af raforkuframleiðslu heimsins, samanborið við um 18 TW-stundir sem íslensk heimili og iðnaður nota.
Bitcoin-hagkerfið notar nú um þriðjung þeirrar raforku sem hefðbundna bankakerfi heimsins notar.
Ekki er langt síðan BBC greindi frá því að rafeyrisvinnsla hér á landi hefði tekið fram úr heimilum í orkunotkun, en íslensk heimili nota vitanlega aðeins lítinn hluta orku hérlendis.
Ólíkt hefðbundnum gjaldmiðlum eru bitcoin og svipaðar rafmyntir ekki miðstýrðar af ríkisvaldi eða annarri stofnun. Ef flytja á bitcoin frá einum notanda inn á annan fer færslan því ekki í gegnum einn miðlægan stjórnanda, eins og banka, heldur gegnum fjölda ótengdra tölva sem keyra sérstök forrit.
Bitcoin-„reikningsnúmer“ sendanda og viðtakanda, auk upphæðarinnar sem skal millifæra, eru færðar inn í skrána, sem nefnist bálkakeðja (e. blockchain). Bálkakeðjan er uppfærð yfir hundrað sinnum á dag og send í allar tölvur sem meðhöndla bitcoin.
Þessi bálkakeðja er yfirfarin af þúsundum, ef ekki milljónum, notenda til að ganga úr skugga um að allar tölvur sem meðhöndla bitcoin noti sömu réttu útgáfuna af bálkakeðju.
Þeir sem sjá um þessa yfirferð nefnast bitcoin-grafarar (e. miners). Þeir ljá þar með kerfinu örgjörva sinn til að sjá um yfirferðina, en fá að launum örlítið af bitcoini, sem búið er til í leiðinni. Þessi framleiðsla er gríðarorkumikil. Raunar svo að orkan sem fer í eina staka bitcoin-færslu gæti knúið meðalheimili á Íslandi í heilan mánuð.
Ef miðstýrðu fjármálakerfi heimsins ætti að skipta út fyrir bálkakeðjur hefði það sennilega í för með sér að orkuþörfin yrði meiri en öll raforkuframleiðsla heimsins. Áhugamenn um rekjanleika á alnetinu og skattrannsakendur ættu því að geta andað léttar í bili.