Fjármálaeftirlitið mun áfram fylgjast náið með máli Lífeyrissjóðs verslunarmanna er varðar afturköllun umboðs fjögurra stjórnarmanna VR, verði nýir stjórnarmenn valdir vegna ágreinings um tiltekið málefni. Þetta segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, í samtali við mbl.is, en FME sendi bréf á stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna vegna málsins í gær.
Spurður út í áform Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að halda til streitu ákvörðun um afturköllun umboðs stjórnarmannanna, segist hann ekki geta fullyrt um það hvernig FME bregðist við, verði afturköllun umboðsins framkvæmd með réttum hætti.
Í fyrrnefndu bréfi FME í gær kom fram sú afstaða að stjórnarmennirnir væru áfram stjórnarmenn í sjóðnum. Rakti FME meðal annars að ákvörðunin hefði stafað frá fulltrúaráði VR en ekki stjórn, líkt og kveðið væri á um í samþykktum lífeyrissjóðsins. Þá var þeim tilmælum einnig beint til lífeyrissjóða í dreifibréfi sem FME sendi einnig út í gær að taka samþykktir sínar til skoðunar.
„Í ljósi þessa máls höfum við komist að því að almennt séð segja samþykktir lífeyrissjóða frekar fátt um það hvernig skal staðið að vali og afturköllun á umboði stjórnarmanna. Okkur sýnist að þær séu óskýrar um þetta og hvetjum því lífeyrissjóði almennt til þess að skoða sínar samþykktir svo hægt sé að gæta að sjálfstæði stjórna lífeyrissjóða og góðum stjórnarháttum,“ segir Jón Þór.
Í bréfi FME kemur fram að ef af ákvörðun VR verður, að afturkalla umboð stjórnarmannanna í tengslum við ákvörðun stjórnarinnar um vexti fasteignaverðtryggðra lána sjóðfélaga, megi líta svo á að um tilraun til beinnar íhlutunar í stjórn lífeyrissjóðsins sé um að ræða. Það sé með óbeinum hætti ætlað að færa ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins og vegi að sjálfstæði stjórnar og góðum stjórnarháttum.
„Við svöruðum erindi lífeyrissjóðsins á þá leið að stjórnin sem tilkynnt var um í mars sl. standi enn og hafi fullt umboð að okkar mati. Almennt viljum við segja að afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sem byggir á ósætti um einstakar ákvarðanir stjórnar geti eðli máls samkvæmt talist bein íhlutun í stjórnir lífeyrissjóða og fært þar með ákvörðunarvald frá stjórnum lífeyrissjóða. Við teljum að þetta vegi að sjálfstæði stjórnar og gangi beinlínis í berhögg við góða stjórnarhætti,” segir Jón Þór.
Hann bendir á að þar sem FME líti ekki svo á að ákvörðun VR hafi tekið gildi, hafi þó ekki verið tekin nein sérstök ákvörðun gagnvart Lífeyrissjóði verslunarmanna eða tilnefningaraðilum. „Við lýsum þessu almenna „prinsippi“ sem varðar ekki aðeins þennan tiltekna lífeyrissjóð,“ segir hann.
Fram kemur í bréfi FME að í félagarétti sé almennt ekki óheimilt að afturkalla umboð stjórnarmanna. Því séu þó ákveðin takmörk sett í lögum. Sem fyrr segir eru samþykktir LV óskýrar hvað þetta varðar að mati FME. „Við teljum að þessi tilnefning hafi ekki verið gerð með réttum hætti, en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að afturkalla umboð. Rétt eins og í öðrum félögum getur sá sem hefur tilnefnt undir ákveðnum kringumstæðum afturkallað umboð. Vandinn í þessu tilviki er bara að reglurnar í kringum það eru ekki nógu skýrar,“ segir Jón Þór.
Ragnar Þór lýsti yfir fullnaðarsigri í Morgunblaðinu í dag eftir að FME sendi út bréf sitt. Sagði hann að áformum um afturköllun umboðs stjórnarmannanna yrði haldið til streitu. Spurður hvort áfram yrði byggt á sömu forsendum og þegar fulltrúaráð VR ákvað að afturkalla umboð stjórnarmannanna upphaflega, sagði Ragnar Þór að ekki þyrfti að gefa upp ástæðu fyrir því.
Spurður um þetta kveðst Jón Þór ekki geta fullyrt um það hvernig FME bregðist við, verði afturköllun umboðsins framkvæmd með réttum hætti. Aðspurður segir hann að ef byggt sé á öðrum forsendum sé ekki útilokað að heimilt sé að afturkalla umboð stjórnarmannanna.
„Ég get ekki fullyrt um það hvað við gerum ef þetta verður framkvæmt með réttum hætti. Það liggur fyrir okkar afstaða um að það gæti gengið á svig við góða stjórnarhætti. Það sem við teljum mikilvægast í þessu er að stjórnin virki sjálfstætt. Ef það komi inn nýir stjórnarmenn vegna ágreinings um eitthvað tiltekið málefni, þá er það eitthvað sem við þurfum að fylgja náið eftir. Hvernig viðkomandi stjórnarmenn ætla að taka ákvarðanir í þeim málum og öðrum,“ segir Jón Þór.
Hann segir að FME muni líta á málið heildstætt og túlka nýja ákvörðun um afturköllun umboðs stjórnarmannanna í samhengi við aðra hluti. „Ég get ekki úttalað mig um það hvort við leggjum það að jöfnu, fyrri ástæður eða hugsanlegar nýjar ástæður. Við getum ekki haft skoðun á því fyrr en að því kæmi,“ segir hann.