Valitor hefur fallist á að greiða Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) 1,2 milljarða króna í skaðabætur vegna slita á samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til Wikileaks árið 2011.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur verið gengið frá samkomulagi þess efnis, en skaðabæturnar eru í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í apríl síðastliðnum. Valitor, dótturfélag Arion banka, hafði tilkynnt að það hygðist áfrýja dómnum til Landsréttar.
Dómskvaddir matsmenn mátu tjónið á 3,2 milljarða króna, en dómarar í málinu töldu að veikleikar væru á þeim forsendum sem tölfræðilegir útreikningar matsmanna byggðust á og því væri ekki unnt að leggja niðurstöðu matsgerðarinnar til grundvallar sem sönnunargagn um umfang tjónsins. Krafa um vexti og dráttarvexti aftur í tímann kom ekki til álita, en krafa Datacell og SPP í málinu hljóðaði upp á 8,1 milljarð.
Málið á rætur að rekja til lokunar Valitor árið 2011 á greiðslugátt til Datacell sem safnaði greiðslum fyrir Sunshine Press Productions, fyrirtækið að baki Wikileaks.
Gáttin var alls lokuð í 617 daga og skaðabótakrafan byggir á tjóninu sem fyrirtækin urðu fyrir á meðan gáttin var lokuð.