Aðeins 8% allra seldra íbúða á höfuðborgarsvæðinu seldust yfir ásettu verði í maímánuði og 80% þeirra voru seldar undir ásettu verði. Sama mánuð í fyrra seldust 71% íbúða undir ásettu verði og 11% yfir, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn.
Þá hækkaði vísitala íbúðaverðs um 0,3% milli apríl og maí sem er svipuð hækkun og milli fyrri mánaða. Árshækkun vísitölunnar mælist nú um 3,9% samanborið við 4,7% árshækkun í apríl og 5,2% í maí í fyrra.
Fram kemur að á fimm fyrstu mánuðum ársins var 1,2% samdráttur í fjölda seldra íbúða í fjölbýli en 6% aukning í fjölda seldra sérbýla.
Þrátt fyrir söluaukningu sérbýla hefur meðalsölutími þeirra verið að lengjast úr 96 dögum frá janúar til maí í fyrra í 109 daga sama tímabil þessa árs. Þá hefur að meðaltali tekið 94 daga að selja íbúð í fjölbýli á tímabilinu samanborið við 89 daga í fyrra.
Meðalsölutími íbúða alls á höfuðborgarsvæðinu mældist 101 dagur í maí samanborið við 87 daga í sama mánuði í fyrra.