Ráðningarferli vegna fyrirhugaðrar nýrrar opnunar verslunar Tölvuteks í Reykjavík stendur nú yfir. Gert er ráð fyrir því að þar muni starfa milli 15 og 17 manns. Verslunin mun ekki opna í Hallarmúla heldur í Mörkinni. Þetta segir Emil G. Einarsson, framkvæmdarstjóri Notendalausna hjá Origo, í samtali við mbl.is
Tilkynnt var í gær að Tölvutek myndi opna verslanir sínar á nýjan leik bæði í Reykjavík og á Akureyri eftir að fyrirtækið varð að dótturfélagi Origo. Stefnt er á að opna innan fárra vikna.
Eigendur Tölvuteks óskuðu eftir því að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í júní á þessu ári. Þá störfuðu um fjörtíu starfsmenn hjá fyrirtækinu. Ljóst er að þeir munu ekki allir fá störfin sín aftur.
Í tilkynningu sem gefin var út þegar óskað var eftir gjaldþrotaskiptum kom fram að flutningar og breytingar í rekstri hafi reynst töluvert dýrari en áætlað hafði verið og nýja húsnæði Tölvuteks í Hallarmúla hefði verið dragbítur á rekstrinum.
Nú er ljóst að framtíð verslunar Tölvuteks í Reykjavík liggur ekki í Hallarmúla heldur er verið að ganga frá leigusamningi um húsnæði í Mörkinni 3. Verslunin á Akureyri verður áfram á sama stað í Undirhlíð.
„Okkur vantaði söluleið fyrir neytendavöru. Við erum meira að fókusa á fyrirtækjamarkaðinn, segir Emil og bætir við:
„Við höfum verið og erum með tölvur fyrir einstaklingsmarkaðinn og þarna er komin söluleið fyrir þann búnað til einstaklinga. Tölvutek hefur staðið sig mjög vel í því og það er þeirra kjarnastarfsemi. Við erum með góð umboð sem er þá hægt að láta fara þarna í gegn.“
Samhliða nýrri opnun Tölvuteks á nýjum stað mun verslun Origo taka breytingum.
„Hún breytist meira í þá átt að sýna upplifun viðskiptavina í þeim lausnum sem við seljum og þá aðallega í hljóð- og myndlausnum. Við erum með umboð fyrir Sony, Bose og fyrirtækjatölvur og einbeitingin verður meira á þeim,“ bætir Emil við.