Erlendum ferðamönnum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fækkaði um 105 þúsund á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra eða um 19,2%. Fækkunin er mun meiri en á fyrsta ársfjórðungi þar sem hún nam einungis 4,7% og er fall flugfélagsins WOW air sögð ástæðan.
Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.
Írskum ríkisborgurum fækkaði hlutfallslega mest og næst mest fækkaði af Ísraelum. Norður-Ameríkubúar frá Bandaríkjunum og Kanada fylgdu þar næst á eftir.
Fækkun Bandaríkjamanna og Kanadamanna í júní var í samræmi við þá fækkun sem hefur verið í apríl og mái en fækkun þessara þjóða hefur verið töluvert meiri en Evrópuþjóða. Þessi mismunur er skýrður með meiri hlutdeild WOW air í flugi til og frá Bandaríkjunum en Evrópu.
Þrátt fyrir almenna fækkun erlendra ferðamanna þá fjölgaði ferðamönnum frá einstaka ríkjum á öðrum ársfjórðungi. Rússum fjölgaði um fjórðung miðað við sama tímabil í fyrra og þá er Kínverjum tekið að fjölga hér á landi aftur eftir fækkun á fyrri hluta síðasta árs.
Bandaríkjamenn skýra langmest af heildarfækkun erlendra ferðamanna á öðrum ársfjórðungi en tæplega 60% af heildarfækkun erlendra ferðamanna má skýra með fækkun Bandaríkjamanna.