Stjórn Icelandair Group hf. hefur skrifað undir kaupsamning við félagið Berjaya Property Ireland Limited, dótturfélag malasísku fyrirtækjasamstæðunnar Berjaya Land Berhad, um að félagið eignist meirihluta í Icelandair Hotels ásamt þeim fasteignum sem tilheyra rekstri hótela keðjunnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair hefur sent kauphöllinni, en stofnandi og stjórnarformaður Berjaya er Tan Sri Dato Vincent Tan, sem meðal annars á velska knattspyrnufélagið Cardiff City.
Heildarvirði Icelandair Hotels og tengdra fasteigna er í tilkynningunni sagt nema 136 milljónum bandaríkjadala, eða rúmlega sautján milljörðum íslenskra króna.
Þar segir einnig að samstæðan sé með starfsemi í fjölda atvinnugreina, þar á meðal hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Samstæðan auk tengdra félaga sé með um 4.000 starfsmenn og árlegar tekjur hennar nemi um 1,6 milljörðum bandaríkjadala.
Bent er á að Icelandair Hotels bjóði fjölbreytta gistimöguleika um land allt og sé heildarfjöldi herbergjaframboðs félagsins 1.811. Að auki hyggist félagið, í samstarfi við Hilton Hotels, opna nýtt 145 herbergja glæsihótel á Landsímareit árið 2020.
„Tekjur Icelandair Hotels námu 97 milljónum USD árið 2018 og heildarfjöldi starfmanna var 699. EBITDA hótelrekstrarins var 7 milljónir USD og leigutekjur fasteigna tengdum hótelrekstrinum námu 5 milljónum USD. Heildarflatarmál fasteignanna er 17.738 m2 og samanstanda af Hilton Canopy Reykjavík, Icelandair Hótel Akureyri, Icelandair Hótel Mývatni og Icelandair Hótel Héraði,“ segir í tilkynningunni.
Samkvæmt kaupsamningnum muni Berjaya eignast 75% hlut í félaginu háð því skilyrði að Icelandair Group haldi eftir 25% hlut í a.m.k. þrjú ár, en samhliða kaupsamningnum hafa Icelandair Group og Berjaya skrifað undir kaup- og söluréttarsamninga vegna eftirstandandi 25% hlutarins.
Viðskiptin muni ganga í gegn við lok þessa árs, háð skilyrðum frá báðum aðilum.