Eigandi Cardiff kaupir Icelandair Hotels

Vincent Tan, eigandi Cardiff City, mætir jafnan á heimaleiki liðsins …
Vincent Tan, eigandi Cardiff City, mætir jafnan á heimaleiki liðsins og situr í stúkunni íklæddur treyju liðsins. AFP

Stjórn Icelandair Group hf. hefur skrifað undir kaupsamning við félagið Berjaya Property Ireland Limited, dótturfélag malasísku fyrirtækjasamstæðunnar Berjaya Land Berhad, um að félagið eignist meirihluta í Icelandair Hotels ásamt þeim fasteignum sem tilheyra rekstri hótela keðjunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair hefur sent kauphöllinni, en stofnandi og stjórnarformaður Berjaya er Tan Sri Dato Vincent Tan, sem meðal annars á velska knattspyrnufélagið Cardiff City.

Heildarvirði Icelandair Hotels og tengdra fasteigna er í tilkynningunni sagt nema 136 milljónum bandaríkjadala, eða rúmlega sautján milljörðum íslenskra króna.

Bjóði fjölbreytta gistimöguleika um land allt

Þar segir einnig að samstæðan sé með starfsemi í fjölda atvinnugreina, þar á meðal hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Samstæðan auk tengdra félaga sé með um 4.000 starfsmenn og árlegar tekjur hennar nemi um 1,6 milljörðum bandaríkjadala.

Bent er á að Icelandair Hotels bjóði fjölbreytta gistimöguleika um land allt og sé heildarfjöldi herbergjaframboðs félagsins 1.811. Að auki hyggist félagið, í samstarfi við Hilton Hotels, opna nýtt 145 herbergja glæsihótel á Landsímareit árið 2020.

Viðskiptin gangi í gegn í árslok

„Tekjur Icelandair Hotels námu 97 milljónum USD árið 2018 og heildarfjöldi starfmanna var 699. EBITDA hótelrekstrarins var 7 milljónir USD og leigutekjur fasteigna tengdum hótelrekstrinum námu 5 milljónum USD. Heildarflatarmál fasteignanna er 17.738 m2 og samanstanda af Hilton Canopy Reykjavík, Icelandair Hótel Akureyri, Icelandair Hótel Mývatni og Icelandair Hótel Héraði,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt kaupsamningnum muni Berjaya eignast 75% hlut í félaginu háð því skilyrði að Icelandair Group haldi eftir 25% hlut í a.m.k. þrjú ár, en samhliða kaupsamningnum hafa Icelandair Group og Berjaya skrifað undir kaup- og söluréttarsamninga vegna eftirstandandi 25% hlutarins.

Viðskiptin muni ganga í gegn við lok þessa árs, háð skilyrðum frá báðum aðilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka