Carsten Spohr, forstjóri þýska flugfélagsins Lufthansa, segir að banna ætti flugfélögum að selja farmiða á undir 10 evrur, um 1.400 krónur. Óábyrgt sé að selja slíka miða út frá efnahags-, umhverfis- og stjórnmálasjónarmiðum. Bloomberg greinir frá.
Spohr segir að tvö stærstu lággjaldaflugfélög Evrópu tapi stórfé á að bjóða miða undir kostnaðarverði í viðleitni sinni til að koma sér betur inn á Þýskalandsmarkað, heimavöll Lufthansa. Lufthansa lækkaði í síðasta mánuði afkomuspá sína fyrir árið og vísaði til lækkandi farmiðaverðs sem ástæðu, en hún stafaði af aukinni samkeppni lággjaldaflugfélaga í evrópu, einkum í Þýskalandi og Austurríki.
Ryanair er eitt þeirra flugfélaga sem stundum býður flugmiða frá Berlín til annarra borga Evrópu fyrir innan við tíu evrur, þótt verðið sé jafnan nokkru hærra.