Gríðarleg áhersla á þéttingu byggðar hefur leitt til þess að íbúðum í miðborg Reykjavíkur hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Vignir S. Halldórsson sem rekur verktakafyrirtækið MótX segir í viðtali í Viðskiptapúlsinum í dag að þessi stefna birti ákveðna hjarðhegðun á byggingamarkaði sem oft hafi leikið Íslendinga grátt.
Þannig hafi verktakar á einum tímapunkti allir farið að byggja fjögurra herbergja íbúðir en síðustu ár hafi nær allir viljað tryggja sér lóðir í miðborginni. Vignir segir að þessi nálgun á markaðinn hafi nú orðið til þess að offramboð hafi myndast í dýrustu hverfum borgarinnar.
„Við erum aðeins að framleiða það sem markaðurinn vill ekki. Það eru fleiri hundruð íbúðir í byggingu í miðborg Reykjavíkur. Ég held að sá markhópur sé bara búinn. Barnafólk langar ekki til að búa á Hverfisgötu með tvö börnin sín. Ég held að það sé fátítt þótt það hafi efni á því það er dýr fermetrinn þarna,“ segir Vignir.
Spurður út í það hvort verktakar sem nú séu með margar íbúðir í byggingu á þessu svæði geti lent í vandræðum á komandi misserum segir hann að hætt sé við því.
MótX var stofnað árið 2005 og er í dag með um 230 íbúðir í byggingu. Vignir segir að þær séu ekki í miðborginni enda hafi hann ásamt meðeigendum sínum metið stöðuna þannig að skynsamlegra væri að byggja á öðrum svæðum í borgarlandinu. Þannig hafi fyrirtækið nú hafið byggingu á stóru fjölbýlishúsi í Norðlingaholti á lóð sem upphaflega var hugsuð undir atvinnuhúsnæði.
Vignir segir að með því að þétta byggð utan miðborgarinnar, þar sem ekki er eins dýrt að hefja framkvæmdir, sé tækifæri til að nýta innviði sem nú þegar eru til staðar mun betur en annarsstaðar. Það eigi við um gatna- og skolpkerfi, skólabyggingar og aðra þjónustu sem byggð hefur verið upp í hverfum sem nú þegar hafa risið.
Spurður út í stöðuna framundan segir Vignir að markaðurinn leiti ákveðinnar aðlögunar og nú sé sennilegt að í hönd fari tvö ár þar sem verktakar geti dregið andann, endurmetið stöðuna og í kjölfarið lagt af stað í ný verkefni.
Hlusta má á sautjánda þátt Viðskiptapúlsins hér að neðan. Þá má einnig nálgast fría áskrift að þáttunum í gegnum helstu podcast-veitur hjá Itunes, Spotify og Google Play.