Kínverska flugfélagið Tinajin Airlines hefur sótt um þrjá afgreiðslutíma í viku á Keflavíkurflugvelli fyrir næsta vetur. Gert er ráð fyrir flugi frá kínversku borginni Wuhan til Helsinki og þaðan rakleiðis til Íslands.
Þetta kemur fram á vef Túrista.
Þar segir enn fremur að þó að flugfélagið fái afgreiðslutíma sem það hefur óskað eftir, í Helsinki, Wuhan og á Keflavíkurflugvelli, þá sé ekki öruggt að óbeina Asíuflugið verði að veruleika.
Ekki er hægt að bóka flug til Íslands á vefsíðu Tinajin Airlines eins og staðan er í dag.