Smálánafyrirtækið eCommerce 2020 Aps, í eigu Kredia Group, hefur kynnt nýtt skammtímalán á 53,7% vöxtum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Vextirnir eru rétt innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum um neytendalán, en þar segir að árleg hlutfallstala kostnaðar, sem eru í raun eiginlegir vextir, megi aldrei vera hærri en stýrivextir að viðbættum 50 prósentustigum. Stýrivextir eru nú 3,75% og því ljóst að þessi tala er 53,75%.
Á 53,7% vöxtum má taka 20.000 króna lán og greiða af því 729 krónur í vexti á mánuði, eða 10.740 krónur á ári. Fyrir 100.000 króna lán í mánuð væru 3.647 krónur greiddar í vexti á mánuði, eða 53.700 krónur á ári.
Fyrirtækið eCommerce 2020 kynnir möguleikann engu að síður sem bætt kjör, enda hafa smálánafyrirtæki árum saman komist hjá lögunum með því að skrá höfuðstöðvar sínar erlendis.
Sama gildir um fyrirtækið eCommerce 2020, en það var stofnað árið 2016 og hefur höfuðstöðvar við Havnegade, skammt frá Nýhöfn í miðborg Kaupmannahafnar, en móðurfélagið Kredia Group er skráð í Bretlandi. Fyrirtækið hefur ekki starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki frá íslenska Fjármálaeftirlitinu, en má starfa innan Evrópska efnahagssvæðisins á danska leyfinu.
Haft er eftir Ondřej Šmakal, forstjóra Kredia Group, að fyrirtækið virði óskir og væntingar sem tengjast þeirri hröðu þróun sem hefur verið að eiga sér stað í síbreytilegu umhverfi EFTA-markaðarins og snýr að lánum og fjártengdum vörum fyrir Norður-Evrópumarkað.