Gangi áætlanir Michele Ballarin og meðfjárfesta hennar eftir mun endurreist WOW air hafa tíu til tólf vélar í sinni þjónustu innan 24 mánaða.
Í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag útlistar Ballarin með hvaða hætti hún sér framtíð hins endurreista flugfélags fyrir sér og ljóst er að hún hefur skoðanir á smærri og stærri málum er varða félagið og aðbúnað þess, m.a. á Keflavíkurflugvelli.
Hún segir að félagið hyggist notast við vélar frá Airbus, enda búi mikil þekking hjá starfsfólki hins fallna félags á slíkum vélakosti. Þá herma heimildir ViðskiptaMoggans að meðal þess sem fylgi með í kaupunum sé varahlutalager sem tengist Airbus-vélum sérstaklega.
Í fyrstu hyggst Ballarin beina þremur flugvélum á áfangastaði félagsins. Fyrst og síðast horfi þau til þeirra áfangastaða sem áður voru í leiðakerfi WOW en einnig sé horft á staði eins og Washington Dulles-flugvöllinn þar sem fyrirtæki hennar, USAerospace, hefur bækistöðvar sínar.
En áætlanir félagsins ganga lengra og innan 24 mánaða er stefnan sett á að WOW air verði með 10 til 12 vélar í rekstri. Það er um helmingi smærri floti en WOW air hafði í flota sínum þegar mest lét á árinu 2018. Ballarin segir að nú þegar sé búið að tryggja 85 milljónir dollara til rekstrarins eða um 10,5 milljarða króna og að það fjármagn eigi að bakka upp reksturinn fyrstu tvö árin. „Ef þörf verður á þá getur sú tala orðið allt að 100 milljónir dollara, eða 12,5 milljarðar króna. Fyrstu 6-10 mánuðina gerum við ráð fyrir 25 milljóna dala framlagi til félagsins, eða rúmum þremur milljörðum króna. Það er bara eitt sem við viljum tryggja: að það skorti ekki fé. Það er mjög mikilvægt. Það að vera með sjóð upp á 85 milljónir dala, vera íhaldssöm í fjármálum og að hafa vel herta sultaról, þá ættum við að geta forðast augljós vandamál.“