Nafn athafnakonunnar Michele Ballarin var fáum kunnugt hér á landi þegar það birtist skyndilega í fjölmiðlum í síðustu viku í tengslum við kaup sterkefnaðra bandarískra aðila á öllum eignum WOW air úr þrotabúi félagsins. Nú er það á allra vörum. Í einkaviðtali við ViðskiptaMoggann greinir Ballarin frá fyrirætlunum sínum varðandi endurreisn flugfélagsins og hugmyndum fyrir framþróun íslensks samfélags og viðskiptalífs gangi kaupin endanlega eftir.
Fáir hefðu líklega getað gert sér í hugarlund að farþegi í hópi strandaglópa á flugvellinum í Baltimore í Bandaríkjunum þegar flugfélagið WOW air hætti starfsemi 28. mars síðastliðinn ætti eftir birtast öllum að óvörum í íslenskum fjölmiðlum tæpum fjórum mánuðum síðar sem væntanlegur nýr eigandi félagsins. Athafnakonan og erindrekinn Michele Ballarin og félag hennar, USAerospace Associates, hefur undirritað samning um kaup á öllum eignum WOW air úr þrotabúi hins fallna félags. Hyggst Ballarin endurreisa félagið eins fljótt og auðið er.
Hinn 29. mars, eða daginn eftir fall flugfélagsins, var Ballarin komin til Íslands til að hefjast handa við ætlunarverk sitt og fyrir síðustu helgi átti hún fund með Isavia og Samgöngustofu til að kynna fyrir þeim hugmyndir sínar. Mun ekki sækjast eftir lánsfé.
Á dögunum var greint frá því að fyrrverandi stjórnendur WOW air hafi sótt um flugrekstrarleyfi fyrir nýtt flugfélag sem þeir kalla WAB (We Are Back). Þá er Icelandair umsvifamikið á markaðnum. Hræðist hún samkeppnina? „Nei, samkeppni er af hinu góða. Ég kem úr frjálsu hagkerfi þar sem ríkir mikil samkeppni. Þjóðríki á ekki að vera háð einu flugfélagi. Þá ertu að borga of há fargjöld. Samkeppni hræðir mig ekki. Ef rekstrarmódelið okkar er gott þá er ekkert að óttast. Íslendingar og íslensk stjórnvöld þurfa valkost í flugi. Og ef við erum góð í því sem við gerum mun fólk velja okkur.“
Spurð hvort hún hyggist leita eftir lánsfjármagni við uppbyggingu WOW air 2 kveður Michele nei við. „Við erum skuldlaus. Við vinnum með eigið fé, ekki lánsfé.“
Auk uppbyggingu flugfélags kveðst Michele sjá fyrir sér að byggja upp svokallaða WOW-setustofu (e. lounge), einfalda greiðslu- og bókunarferli WOW air auk fjölda annarra spennandi verkefna.
Ítarlegt viðtal við Michele Ballarin má finna í ViðskiptaMogga dagsins.