Keyptu 100 hjól úr þrotabúi WOW

Nokkur þeirra hjóla sem voru keypt úr þrotabúi WOW air.
Nokkur þeirra hjóla sem voru keypt úr þrotabúi WOW air. mbl.is/Hallur

City Bike hefur keypt öll eitt hundrað reiðhjólin sem voru í þrotabúi WOW air og hyggst fyrirtækið setja á fót hjólaleigu í höfuðborginni.

Að sögn Adams Karls Helgasonar, framkvæmdastjóra City Bike, fékk fyrirtækið hjólin í hendurnar fyrir rúmum tveimur mánuðum. Fyrirtækið tók þátt í útboði um að setja upp hjólastöðvar í Reykjavík sem borgin ætlar að styrkja með fimm milljónum króna á ári næstu tvö árin. Einn aðili til viðbótar tók þátt í útboðinu en svar frá borginni er ekki komið. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá.

Ef City Bike fær ekki það verkefni verður rætt við hótel eða önnur fyrirtæki sem eru miðsvæðis um að setja upp hjólastöðvar.

Hugmyndin er að setja upp hjólastöðvar á átta stöðum í borginni sem yrðu nær hver annarri en þær sem WOW air setti upp, að sögn Adams Karls, þannig að auðveldara verði að skila hjólunum á næsta stað.

Stílað verður inn á erlenda ferðamenn. „Það væri frábært ef Íslendingar gætu gripið þetta líka, til dæmis sem lokaspöl frá Hlemmi niður á Ingólfstorg,“ segir hann við mbl.is og bætir við að þjónustan eigi að vera bæði ódýr og hentug.

City Bike hefur einnig verið í sambandi við tvö erlend fyrirtæki um að fá frá þeim rafmagnshlaupahjól og Segway-hjól og heitir annað fyrirtækjanna Bird.

Að sögn Adams Karls, sem stofnaði fyrirtækið með föður sínum og nokkrum til viðbótar, ganga hjólaleigur sem þessar mjög vel erlendis. Hann gerir sér grein fyrir því að veðrið hérlendis getur haft áhrif á viðskiptin en er vongóður. „Fólk er að taka mjög vel í þetta og það eru margir spenntir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK