Launavísitala hækkaði um 0,1% á milli maí og júní en síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,3%. Það er minnsta ársbreytingin frá því í febrúar 2011.
Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands.
Kaupmáttur í júní var 0,8% minni en var í júní 2018. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 25%, eða u.þ.b. 6% á ári.
Launavísitala er verðvísitala sem byggist á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands og sýnir breytingar á verði vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma. Vísitala kaupmáttar launa byggir á launavísitölu og vísitölu neysluverðs. Almennt eykst kaupmáttur launa þegar laun hækka umfram verðlag en minnkar þegar verðbólga er meiri en launahækkanir.