Skiptastjórar þrotabús WOW air eiga í viðræðum við innlenda og erlenda aðila um möguleg kaup þeirra á flugrekstrareignum WOW air. Þetta staðfestir Þorsteinn Einarsson, annar tveggja skiptastjóra, í Morgunblaðinu í dag.
Hann staðfestir jafnframt frétt blaðsins frá því á laugardag um að samningi um kaup Michele Ballarin og félags henni tengdri á fyrrnefndum eignum hafi verið rift.
Segir hann talsverðan áhuga á eignunum, ekki síst þeim sem tengist viðhaldsmálum Airbus-flugvéla en WOW air átti talsverðan lager varahluta og búnaðar sem tengdist viðhaldi flugflota félagsins. Þorsteinn segir þau verðmæti vel seljanleg á alþjóðlegum markaði og að unnið sé að koma þeim í verð.