Alþjóðlega upplifunarfyrirtækið VIAD hyggst leggja 11 milljónir Bandaríkjadala (um 1,35 milljarða króna) í nýjan baðstað og heilsulind á höfuðborgarsvæðinu þar sem jarðhiti verður nýttur.
Þetta kemur fram á heimasíðu VIAD sem skráð er í kauphöllina í New York. Þar er vitnað í Steve Moster, forstjóra VIAD, sem segir að staðurinn verði við sjávarsíðuna og nálægt miðborg Reykjavíkur. Dótturfyrirtæki VIAD, Pursuit, mun vinna að þessu verkefni í samvinnu við Geothermal Lagoon ehf. Stefnt er að opnun staðarins árið 2021.
Fréttavefurinn Think Geoenergy greindi frá því í gær að með fjárfestingunni eignist VIAD meirihluta, 51%, í íslenska fyrirtækinu sem mun þróa og eiga baðstaðinn og heilsulindina. Pursuit mun annast það sem að gestunum snýr og nýta til þess reynslu sína af rekstri víða um heim.
VIAD rekur marga ferðamannastaði í þjóðgörðum Kanada, í Bandaríkjunum auk þess sem það vinnur m.a. að opnun Flyover Iceland í Reykjavík. Flyover Iceland verður í sérhönnuðu 2.000 m2 húsi á Fiskislóð í Reykjavík og þar boðið upp á sýndarflugferð í náttúru Íslands. Fréttavefurinn segir að frá heilsulindinni verði fagurt útsýni yfir sjóinn og til forsetasetursins á Bessastöðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.