Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu í júní voru færri en á síðustu mánuðum og mun færri en í júní í fyrra. Viðskipti fyrstu 6 mánuði ársins í ár voru 4% færri en á sama tíma í fyrra.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Þar segir að sé litið á seldar íbúðir eftir ársfjórðungum sjáist að frá upphafi ársins 2014 hafi að meðaltali verið seldar um 1.670 íbúðir á ársfjórðungi. Mestu viðskiptin voru á 4. ársfjórðungi 2016 þegar um 2.130 íbúðir voru seldar.
Til samanburðar voru um 1.600 íbúðir seldar á 2. ársfjórðungi í ár sem er um fjórðungi minna en undir árslok 2016. Viðskiptum með íbúðarhúsnæði hafi því fækkað töluvert frá því sem var þá.
„Bein viðskipti milli einstaklinga er langalgengasti sölumátinn á íslenskum fasteignamarkaði, og gildir það einnig um höfuðborgarsvæðið. Um þrír fjórðu hlutar allra viðskipta þar eru jafnan með þeim hætti. Frá upphafi ársins 2016 fram til þessa hefur á bilinu 72-77% viðskipta verið beint milli einstaklinga,“ segir í Hagsjánni.
Næstalgengast er að fyrirtæki selji til einstaklinga.