Kanna megi samstarf við Icelandair

Jóhannes segir mikilvægt að unnið sé með flugfélögum af svipaðri …
Jóhannes segir mikilvægt að unnið sé með flugfélögum af svipaðri stærðargráðu og Icelandair. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að íslensk stjórnvöld verði á næstu misserum að gera upp við sig hvernig markaðssetja eigi Ísland sem ferðamannastað til framtíðar. Að hans sögn er mikilvægt, í kjölfar falls WOW air, að samtal eigi sér stað milli atvinnulífsins og stjórnvalda þar sem unnið er að framtíðarsýn fyrir markaðssetningu ferðaþjónustunnar hér á landi. 

„Flugframboð hefur gríðarleg áhrif á eyju eins og okkar, þar sem nánast allir ferðamenn koma inn með flugi í eina gátt. Höggið sem minnkandi flugframboð hefur á ferðaþjónustuna er mikið enda hefur mikil fjárfesting átt sér stað undanfarin ár, og uppbyggingin verið hröð,“ segir Jóhannes og bætir við að samdrátt á eftirspurnarhliðinni megi rekja til ýmissa þátta. Þó sé erfitt að líta fram hjá áhrifum af falli WOW air.

„Minni eftirspurn getur t.d. verið vegna þess að með WOW air hverfa allar þeirra markaðsaðgerðir, ekki síst í Bandaríkjunum. Þá getur einnig verið að önnur flugfélög þaðan líti til þess að nú séu færri tengingar yfir til Evrópu héðan. Frá sjónarhóli flugfélaga er landið þá kannski ekki eins áhugaverður möguleiki og áður. Það stendur því á okkur í samspili atvinnulífsins og stjórnvalda hvernig við högum okkar markaðssetningu. Við getum ekki verið um allan heim og þurfum af þeim sökum að skoða með lengri tíma sjónarmið í huga hvert við viljum beina orku okkar,“ segir Jóhannes. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Unnið með rótgrónum flugfélögum

Í Viðskiptapúlsinum ræðir Jóhannes þær leiðir sem farnar hafa verið í markaðssetningu á Nýja-Sjálandi. Að hans sögn svipar landinu að mörgu leyti til Íslands sem ferðamannastaðar, þá einna helst hvað staðsetningu landsins varðar.

„Þetta er áfangastaður sem er svipaður Íslandi og jafnvel meira úr alfaraleið en Ísland. Þar er lögð mikil áhersla á ævintýra- og náttúruferðamennsku og þar hafa stjórnvöld og atvinnugreinin unnið saman að þeim markmiðum sem þau vilja ná í framtíðinni. Þeir hafa unnið beint með flugfélögum m.a. til að tryggja framboð á flugsætum ásamt því að vinna með markaðssetningu ákveðinna flugfélaga. Það hefur verið hluti af þeirri áætlun að vinna ekki með lággjaldaflugfélögum heldur fremur með „legacy-flugfélögum“ sem eru að koma með annan kúnnahóp til landsins,“ segir Jóhannes sem telur að kanna megi möguleikann á sambærilegu samstarfi hér heima. Slíkt þurfi þó ekki endilega að vera lausnin, en mikilvægt sé að halda öllu opnu.

„Það eru aðeins önnur lögmál þarna. Við erum álitlegur kostur fyrir flugfélög sem vinna út frá lággjaldastrúktúr vegna staðsetningar landsins. Það er þó áhugaverður punktur hvort við eigum að horfa meira á þetta í framtíðinni. Þetta hefur ekki verið hjá Íslandsstofu undanfarið en það er klárlega áhugavert „debate“ hvort við eigum að gera þetta.“

Ekki dregið úr hvatanum

Í samtalinu við Jóhannes er staða Icelandair innan ferðaþjónustunnar rædd. Flugfélagið er afar rótgróið hér landi og er til að mynda stærsta félagið innan Samtaka ferðaþjónustunnar ásamt því sem fyrrverandi forstjóri félagsins, Björgólfur Jóhannesson, er nú stjórnarformaður Íslandsstofu en forstjóri Íslandsstofu, Pétur Óskarsson, er einnig fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair Group.

Spurður hvort það hafi orðið til þess að dregið hafi úr hvatanum til að auka samkeppni við Icelandair á markaði kveður Jóhannes nei við. Að hans sögn er þó mikilvægt að unnið sé að því að fá til landsins flugfélög sem koma með annars konar kúnnahóp en lággjaldaflugfélög á borð við WOW air hafa gert. 

Ekki er langt síðan greint var frá því að Emirates væri að kanna möguleikann á flugi hingað til lands. Að sögn Jóhannesar væri jákvætt að fá flugfélag af slíkri stærðargráðu hingað til lands.

„Mér finnst ólíklegt að Emirates sjái sér hag í því að vera með beint flug hingað. Við eigum þó að horfa til flugfélaga á þeim skala, ef við ætlum á annað borð að reyna að fá fleiri flugfélög hingað til lands,“ segir Jóhannes.

Hlusta má á nítjánda þátt Viðskipta­púls­ins hér að ofan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá Itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK