Styrking krónu að undanförnu skapar svigrúm til að lækka vöruverð. Þetta er mat Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra Festar, sem rekur m.a. N1 og Krónuna.
„Við lækkuðum verð á bensíni um 3,5 krónur sl. sunnudag. Við kaupum matvöruna hins vegar inn í evrum og þar fylgjum við heimsmarkaðsverði dag frá degi. Þannig að vöruverð er því að lækka með styrkingu krónunnar,“ segir Eggert Þór. Því sé útlit fyrir að undirliðirnir bensín og matvara í verðbólgunni muni lækka milli verðbólgumælinga.
„Það er ljóst að húsnæðisverð er ekki að hækka. Þannig að ég myndi halda að það væru talsverðar líkur á verðhjöðnun milli mánaða. Hækkanir frá birgjum eða flutningsaðilum geta þó líka haft áhrif.“
Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum, segir aðspurður að styrking krónu „ætti að koma fljótlega fram í bensínverði“. Hins vegar kunni núverandi birgðir að hafa verið keyptar inn á misjöfnum tíma og á misjöfnu verði. Það gæti haft áhrif á það hversu hratt styrking krónu hefur áhrif á útsöluverð.
Í umfjöllun um verðlagsþróunina í ViðskiptaMogganum í dag segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, fyrirtækið að endurreikna verð til lækkunar.
Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, segir styrkingu krónu það mikla að hún ætti að þrýsta niður verðbólgu og þar með skapa aukið svigrúm til vaxtalækkana. Þó séu ekki mikil viðskipti að baki styrkingu krónu á gjaldeyrismarkaði. Skýringin á fáum kaupendum krónu sé e.t.v. sumarfrí.