Icelandair Group lækkaði um 9,4% í Kauphöll Íslands í dag. Markaðsvirði félagsins er nú 45,7 milljarðar króna og lækkaði um 4,8 milljarða í dag. Heildarviðskipti með bréf félagsins námu 252,2 milljónum króna og skiptu bréf að þeirri fjárhæð um hendur í 77 viðskiptum.
Félagið birti í gærkvöldi uppgjör sem sýnir að tap á fyrstu sex mánuðum ársins nam um 11 milljörðum króna.
Á uppgjörsfundi sem félagið stóð fyrir í morgun á Hotel Reykjavik Natura kom fram að félagið telji áhrif kyrrsetningar MAX-þota félagsins á EBIT-hagnað nema 140 milljónum dollara á árinu. Miða þær tölur við að kyrrsetningu vélanna verði aflétt í nóvembermánuði. Þá segir Bogi Nils Bogason, forstjóri fyrirtækisins að félagið gangi út frá því að Boeing muni bæta Icelandair það tjón sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningarinnar. Félagið á nú sex vélar af tegundinni 737MAX og þrjár bíða afhendingar í Seattle í Bandaríkjunum.