Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hefur ekki áhyggjur af minnkun handbærs fjár félagsins milli ára því minnkunin, sem nemur 66 milljónum Bandaríkjadala eða rúmum 8 milljörðum króna, skýrist af uppgreiðslum skulda. Hann er sannfærður um að flugfélagið verði áfram samkeppnishæft og segir í samtali við mbl.is að núverandi staða kalli ekki á hlutafjáraukningu.
Handbært fé Icelandair var á sama tíma árs í fyrra 241 milljón dollara en er nú komið niður í 175 milljónir dollara eða rúma 21,5 milljarða króna. Þrátt fyrir það telur Bogi ekki að félagið muni lenda í vandræðum með handbært fé á komandi misserum.
„Ástæðan fyrir því að handbært fé lækkar er að við höfum verið að greiða upp skuldir og létta á skuldastöðunni. Við erum með talsvert af eignum sem eru óveðsettar og getum nýtt til þess að endurfjármagna efnahagsreikninginn okkar og erum að vinna að því,“ segir hann í samtali við mbl.is eftir uppgjörsfund fyrri hluta árs sem fór fram á Icelandair Hotel Reykjavik Natura í morgun.
Icelandair tapaði um 89,4 milljónum Bandaríkjadala, um 11 milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt hálfsársuppgjöri félagsins sem birt var í gærkvöldi. Eykst tap félagsins frá sama tímabili í fyrra því um nærri 50%.
„Að sjálfsögðu hafa MAX-áhrifin verið högg og við metum þau á 140 milljónir dollara. Þau koma beint inn í sjóðflæðið en við ætlum að sjálfsögðu að fá það bætt og þetta er ekki eitthvað sem verður ár eftir ár,“ segir hann og bætir við:
„Efnahagsreikningur félagsins er sterkur og við erum með yfir 400 milljónir dollara í eigið fé og 175 milljónir dollara í lausafé auk þess sem við erum með óádregnar lánalínur þannig að lausafjárstaðan er vel yfir 200 milljónir dollara. Staðan er mjög sterk og við höfum möguleika á að styrkja hana enn frekar en á sama tíma þarf að bæta reksturinn og MAX-málið þarf að leysast.“
Núverandi staða kallar ekki á hlutafjáraukningu að mati Boga enda undirliggjandi rekstur að styrkjast og afkoman að verða betri fyrir utan áhrifin vegna kyrrsetningar MAX-flugvélanna. „Efnahagsreikningurinn er mjög sterkur í dag í alþjóðlegu samhengi.“
Ljóst er að laun og launatengd gjöld eru nokkuð há hjá Icelandair miðað við samkeppnisaðila og sumir telja þau of há. Þrátt fyrir það segir Bogi að Icelandair sé vel samkeppnishæft og verði það áfram. Þá sé ekki hægt að bera saman laun sem hlutfall af veltu hjá Icelandair miðað við önnur flugfélög þar sem uppbygging þeirra sé mjög mismunandi.
„Það eru mjög mörg tækifæri í þessum kjarasamningum til að finna hagræðingaratriði sem við getum skipt á milli félagsins og starfsmanna. Það eru lykilatriði í samningunum, sem við erum í við flugfreyjur núna og síðan við flugmenn sem losna áramótin, að styrkja samkeppnishæfni félagsins og ég er alveg sannfærður um að félagið verði það áfram,“ segir hann og bendir á að Icelandair geri út frá Íslandi þar sem launin eru tiltölulega há miðað við önnur lönd.
„Þá er líka ýmis kostnaður sem fellur til eins og tryggingagjald og þess háttar. En við erum að borga mjög sanngjörn laun í samanburði við samkeppnina og viljum gera það áfram en við sjáum tækifæri í því að auka nýtingu á hverja flugstund og það er okkar markmið,“ bætir hann við.
Það hefur verið gefið út að Icelandair sé að endurskoða flugvélaflotann sinn og það séu þrjár sviðsmyndir til skoðunar í því samhengi. Í fyrsta lagi að halda núverandi áætlun sem snýst um það hvaða vélar koma í staðinn fyrir Boeing 757-þoturnar og þá er aðallega horft til Boeing 737 MAX 8- og 9-véla. Í öðru lagi að taka inn 321 Airbus LR-þotur og nota þær samhliða MAX-vélunum og þriðji kosturinn er að skipta alfarið um stefnu og nota einungis vélar frá Airbus.
„Markmiðið er að komast að niðurstöðu á þessum ársfjórðungi hvað þetta varðar og við erum í viðræðum við leigusala og flugvélaframleiðendur. Við erum nær því að komast að ákvörðun en það verður ekki endilega Airbus þó að það sé álitlegur kostur. Þetta er ferli sem klárast á ákveðnum tímapunkti,“ segir hann að lokum.