„Það eru engar uppsagnir eða aðgerðir á teikniborðinu hjá okkur en við erum náttúrulega bara í stóru félagi og það eru alltaf einhverjar breytingar, tæknibreytingar og áherslubreytingar sem þýða uppsagnir en það getur líka þýtt að það sé að verið að ráða inn á öðrum stöðum þannig að núna í dag eru uppsagnir ekki á teikniborðinu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is.
Icelandair Group kynnti uppgjör félagsins fyrir fyrri hluta árs á hluthafafundi á Reykjavik Natura-hótelinu nú í morgun. Þar kom fram að Icelandair hefði tapað 89,4 milljónum Bandaríkjadala eða um 11 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Bogi telur að tapið vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX-flugvélanna sé um 6 til 7 milljónir dala af þessum ellefu. Tap félagsins eykst um nærri 50% frá sama tímabili frá því í fyrra.
„Við erum í viðamiklum aðgerðum til þess að styrkja rekstur okkar félags og við erum að sjá reksturinn styrkjast mikið á milli ára. En síðan koma MAX-áhrifin inn og eins og við metum stöðuna þá eru, af þessum ellefu milljörðum, milli sex og sjö vegna kyrrsetningarinnar,“ segir Bogi og bætir við:
„Síðan verður að hafa það í huga að það er mikil árstíðasveifla í okkar rekstri. Fyrsti ársfjórðungur í okkar rekstri og hjá mörgum flugfélögum er mjög oft neikvæður og það er þannig hjá okkur að fyrsti og fjórði ársfjórðungur eru yfirleitt með tapi. En við viljum gera betur í okkar rekstri og erum að gera það.“
Hann segist vera ánægður með reksturinn ef áhrifin vegna kyrrsetningar MAX-flugvélanna eru tekin út fyrir sviga en það sé alltaf markmið Icelandair Group að gera betur og „þau tækifæri ætlum við að grípa“.