Apple er ekki á meðal þriggja stærstu farsímaframleiðenda í heimi lengur. Sú staða hefur ekki komið upp í áratug. Sala iPhone-síma dalar og dalar. Á öðrum ársfjórðungi 2019 voru 15% færri iPhone-símar sendir í sölu en á sama tíma árið áður, að sögn Telegraph.
Apple missti þriðja sætið á þessum lista yfir aðsópsmestu farsímafyrirtæki heims til hins kínverska Oppo. Því hefur vaxið fiskur um hrygg í Asíu undanfarið, þótt ekki sé það eins þekkt á Vesturlöndum.
Í gögnum frá greiningarfyrirtækinu IHS Markit kemur fram að 35,3 milljónir iPhone-síma hefðu farið í sölu á umræddu tímabili, sem gæfi tæknirisanum um 11% markaðshlutdeild. Á sama tíma var Oppo að selja 36,2 milljónir síma. Samsung, sem hefur forystu í snjallsímasölu, seldi 75,1 milljón.
Huawei, sem vermir annað sætið á listanum, seldi 58,7 milljónir snjallsíma. Er það sagt til marks um að félagið hafi staðið af sér hneykslismál ýmis sem skotið hafa upp kollinum að undanförnu, þar sem Huawei hefur verið sagt leggja kínverskum njósnurum lið.
Apple tók fram úr Nokia árið 2011 sem stærsti snjallsímasali heims og ári síðar hreppti Samsung forystuna, sem það hefur haft síðan. Tim Cook forstjóri Apple hefur talað um að iPhone-eigendur séu í æ minna mæli að kaupa sér nýjustu gerð símans ár hvert og hefur fallist á að þar komi til að hluta hátt verð. Með hliðsjón af þeirri framvindu þarf ekki að koma á óvart að Samsung selur sífellt fleiri „ódýra“ snjallsíma víða um heim.