Ekki verður lengur hægt að fljúga beint frá Keflavíkurvelli til Dallas í Texas í Bandaríkjunum eftir að American Airlines ákvað að láta af þessari leið, að því er fram kemur á vef Túrista. American Airlines mun hins vegar fljúga daglega til Fíladelfíu næsta sumar.
Haft er eftir fjölmiðlafulltrúa American Airlines að breytingin feli í sér tækifæri á sviði tengiflugs þar sem félagið flýgur um öll Bandaríkin frá borginni.
Þá er sagt frá því að bæði WOW air og Icelandair hófu beint flug til Dallas í fyrra og að um leið hafi American Airlines einnig hafið flug milli Keflavíkurflugvallar og borgarinnar. Er staðhæft á vef Túrista að íslensku flugfélögin hafi ekki ráðið við samkeppnina og tilkynnt hafi verið síðastliðið haust að ekki yrði flogið til Texas í sumar.
Breytingarnar á flugi American Airlines gera það að verkum að Icelandair fær samkeppni í flugi til Fíladelfíu, en Icelandair hefur flogið til borgarinnar yfir sumartímann síðastliðin ár. Hyggst American Airlines fljúga daglega milli Íslands og Fíladelfíu frá 4. júní til 24. október.