Afar mikill munur er á rekstrarumhverfi golfklúbba í ár miðað við í fyrra, sér í lagi hjá þeim klúbbum sem reiða sig á vallargjaldatekjur til þess að halda rekstrinum réttu megin við núllið. Þar leikur veðrið í sumar lykilhlutverk.
Á Hamarsvelli nemur aukning tekna á milli ára hjá Golfklúbbi Borgarness, í apríl og maí, 2.600%, fyrir júnímánuð nemur aukningin 430% og júlímánuð 96%, í samanburði við sömu mánuði í fyrra.
„Ég hef verið í þessu í 13 ár í Borgarnesi og fer líklega í fyrsta skipti áhyggjulaus inn í veturinn vegna lausafjárstöðu,“ segir Jóhann Ármannsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness, en 105% aukning er á leiknum hringjum þar á bæ á milli ára. Hljóðið var gott í öllum viðmælendum Morgunblaðsins. Á Akranesi verður níu milljóna tapi frá því í fyrra snúið við. Þar hafa tekjurnar vaxið um 70-80% á milli ára. Á Selfossi hafa tekjur aukist um 40%. Á Ísafirði var Tungudalsvöllur opnaður 27. apríl. Slíkt hefur aldrei verið hægt að gera jafn snemma.