Bandaríska athafnakonan Michele Ballarin er nú stödd hér á landi í því skyni að funda um endurreisn WOW air, að því er ferðavefurinn Túristi.is greinir frá. Er Ballarin sögð hafa fengið almannatengilinn Gunnar Stein Pálsson í lið með sér.
Greint var frá því í lok síðasta mánaðar að þrotabú WOW air hefði rift kaupsamningi Ballarin í eigur flugfélagsins og var ástæðan sögð sú að síendurtekið hefði dregist að inna af hendi fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningi.
Túristi segir Ballarin engu að síður enn vinna að stofnun nýs félags á grunni WOW air og það sé ástæða veru hennar hér á landi. Er Ballarin sögð funda með framáfólki í íslenskri ferðaþjónustu og viðskiptalífi.
„Í föruneyti hennar er sem fyrr lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson en einnig Gunnar Steinn Pálsson almannatengill,“ segir í fréttinni og staðfesti Gunnar Steinn við Túrista að hann ynni með Ballarin en vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um málið.