Ekki öll nótt úti í ferðaþjónustunni

Ingólfur Axelsson, forstjóri Tröllaferða.
Ingólfur Axelsson, forstjóri Tröllaferða. mbl.is/RAX

Ferðaþjónustufyrirtækið Tröllaferðir skilaði 122 milljóna króna hagnaði eftir skatta á síðasta ári, samanborið við 3,7 milljónir árið áður. Tekjur félagsins námu 966 milljónum króna í fyrra, en voru 431 árið 2017. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Ingólfur Ragnar Axelsson frumkvöðull stofnaði félagið árið 2016 og lagði það í upphafi áherslu á sérhæfðar dagsferðir. Síðar var jöklagöngum bætt við og í fyrra hóf fyrirtækið að bjóða upp á köfun í Silfru og íshellaferðir í Skaftafelli, Breiðamerkurjökli og Mýrdalsjökli.

Hefur fyrirtækið í sífellu fært út kvíarnar og nú stendur til að bæta við hringferðum um landið, sex og átta daga ferðum þar sem komið verður við á helstu stöðum: Akureyri, Egilsstöðum, við Mývatn, Höfn og víðar. Ingólfur segist eiga von á um 3.000 ferðalöngum í hringferðirnar í vetur og þeir verði vafalaust búbót fyrir landsbyggðina enda löngum talað um mikilvægi þess að koma ferðamönnum út á land.

Alls voru viðskiptavinir Tröllaferða um 100.000 í fyrra. Á sumrin njóta köfun og jöklaferðir mestra vinsælda, en á veturna eru það dagsferðir út á land og ferðirnar inn í íshella, sem þykja einstakt sjónarspil, sem njóta mestrar hylli. 

Umræðan á Íslandi of öfgakennd

Undanfarið hafa fréttir borist af erfiðara rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar, en meðal annars lítur út fyrir talsverða fækkun ferðamanna á þessu ári. Þá hefur verið talað um að hagræða þurfi í greininni, en nýleg tilkynning um sameiningu tveggja rútufyrirtækja er dæmi þar um.

Spurður hvernig fyrirtækinu hafi tekist að vaxa jafnmikið og raun ber vitni þvert á stöðu markaðarins í heild, segir Ingólfur enga snilligáfu skýra það. Þrátt fyrir fækkun sæki enn um tvær milljónir manna landið heim árlega. Mikill vöxtur hafi verið á heimsvísu í svokölluðum „sjálfstæðum ferðalöngum“ (Free independent travellers, FIT) sem bóki ferðir á eigin vegum, í stað þess að skipta við ferðaskrifstofur.

Ingólfur segir umræðunni um ferðaþjónustu hætta til að verða of öfgakennd. Þótt vöxtur undangenginna ára sé hættur og einhver samdráttur blasi við, með tilheyrandi erfiðleikum fyrir mörg fyrirtæki, gangi öðrum vel. „Það er mikilvægt að halda því til haga að það eru margir sem hafa atvinnu af ferðaþjónustunni. Hjá Tröllaferðum starfa um 100 manns við að gera það sem þeim finnst skemmtilegast,“ segir Ingólfur.

Söluþóknun markaðstorga 15-30%

Yfirbygging Tröllaferða er lítil og skrifstofan telur aðeins fimm starfsmenn. Þess í stað vinnur fyrirtækið náið með markaðstorgum á borð við Guide to Iceland, stærsta markaðstorgi landsins í ferðaþjónustu, en fyrirtækið kynnir meðal annars og selur ferðamönnum Íslandsferðir sem önnur fyrirtæki halda úti. Guide to Iceland er umsvifamesta fyrirtækið í þeim bransa hér á landi, og greiddi í fyrra 600 milljónir króna í arð.

Undanfarið hefur talsverð umræða átt sér stað varðandi söluþóknanir í tengslum við ferðaþjónustuna, bæði varðandi gistingu og afþreyingu. Sá kostnaður er oftast 15-30% eftir því hvaða þjónusta er seld. Spurður út í þessa þókun og hvernig hún komi við fyrirtækið segir Ingólfur að þetta samstarf sé mikilvægt og að Tröllaferðir hafi talið hagstæðara að vinna með markaðstorgum frekar en að reyna að halda úti eigin söluskrifstofu, þótt auðvitað væri æskilegast að fleiri ferðir væru seld­ar beint í gegn­um heimasíðu fé­lags­ins.

Miklu skipti að halda viðskiptavinum ánægðum, enda séu sáttir kúnnar besta auglýsingin. Ingólfur segist hreykinn af þeirri staðreynd að fyrirtækið komi best út af íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum á vefsíðunni TripAdvisor, sem heldur utan um umsagnir viðskiptavina ýmissa fyrirtækja, hvort heldur það eru afþreyingarfyrirtæki, veitingastaðir eða annað.

Tæp 94% viðskiptavina fyrirtækisins gefi því fimm stjörnur af fimm mögulegum á vefnum, og 4% fjórar stjörnur af fimm, en einungis 2% viðskiptavina gefa fyrirtækinu lægra skor.

Ferðaþjónusta komin til að vera

Spurður út í komandi misseri í ferðaþjónustunni segir Ingólfur að þótt ljóst sé að aðeins hafi kreppt að í ár geri hann ráð fyrir að 2019 verði áfram mjög gott ár hjá fyrirtækinu.  „Það eru aðilar sem bjóða upp á gæði sem njóta góðs af og ég tel að Tröllaferðir, með þau gæði sem við bjóðum upp á, muni halda áfram að vaxa umfram markaðinn,“ segir Ingólfur.

Segir hann að óstöðugur gjaldmiðill og óvissa á flugmarkaði geri það reyndar að verkum að erfitt sé að spá langt fram í tímann, en afþreyingartengd ferðaþjónusta gangi vel og sé ört stækkandi bæði hér heima og í öllum heiminum. Þá sé fyrirtækið í auknum mæli að horfa til Kínamarkaðar og ber Ingólfur vonir til þess að sá markaður muni stækka í hérlendri ferðaþjónustu á komandi árum. „Eitt er ljóst að ferðaþjónustan er komin til að vera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK