Boeing-flugvélaframleiðandinn tilkynnti í dag að búið sé að fresta afhendingu fyrstu véla af lengri útgáfu 777X-breiðþotunnar. Boeing, sem er enn að takast á við afleiðingar kyrrsetningar 737 Max-farþegaþotanna, þarf nú einnig að takast á við vélavandræði sem upp hafa komið við smíði 777X-breiðþotunnar.
Sex mánuðir eru nú frá því Max-vélarnar voru kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa og mun seinkun á framleiðslu 777X-vélanna nú fela í sér að fyrstu vélar af gerðinni 777-9 munu ekki rata á markað fyrr en á næsta ári.
Reuters segir tafirnar m.a. fela í sér að Boeing muni eiga erfitt með að framleiða 777-8-vél fyrir fyrirhugað 21 tíma beint flug Quantas-flugfélagsins frá Sydney til London.
Quantas hafði vonast eftir að fá fyrstu vélarnar afhentar árið 2022 til að geta hafið áætlunarflugið árið eftir.
Reuters segir ákvörðunina þýða að Boeing hafi í raun sett á ís vinnu við þessa lengri breiðþotuútgáfu 777X-vélarinnar og það geti sent viðskiptavini Boeing yfir til franska Airbus-flugvélaframleiðandans sem býður upp á sérstaklega langa útgáfu af A350-1000-vélinni, sem Airbus hafi raunar þegar sent Quantas tilboð í.