WOW air varð ógjaldfært eigi síðar en um mitt ár 2018. Við gjaldþrot félagsins voru þrjár milljónir íslenskra króna á reikningi félagsins. Þetta kom fram í máli Sveins Andra Sveinssonar, annars skiptastjóra WOW air á skiptafundi félagsins sem stendur yfir á Hótel Nordica. Skiptastjórar létu endurskoðunarfyrirtækið Deloitte útbúa greiningu á rekstri og fjárhagi félagsins og liggur hún fyrir fundinum.
Færa má fyrir því rök að félagið hafi verið ógjaldfært er ráðist var í skuldabréfaútboð síðasta haust. Stefnt var að því að safna 100 milljónum evra, en félaginu hafði tekist að safna 50 milljónum evra er útboðinu lauk í september, sem var uppgefið lágmark til þess að útboðið færi fram.
Skiptastjórar WOW air segja 1,1 milljarð króna nú vera í þrotabúinu eftir sölu eigna, en kom fram að virði búsins væri rúmir tveir milljarðar króna. Kolefniskvóti var seldur fyrir 450 milljónir, varahlutir og verkfæri fyrir 400 milljónir, afgreiðslutími á Gatwick-flugvelli fyrir 200 milljónir og aðrar endurgreiðslur gætu numið rúmum hálfum milljarði króna.
Heildarfjárhæðir í bú WOW námu 151 milljarði króna, 13 milljörðum meira en fram kom í upphaflegri kröfuskrá og stafar það af mistökum við gerð upphaflegrar kröfuskrár. Þar af nema forgangskröfur 5,8 milljörðum króna. Samþykktar forgangskröfur nema 223 milljónum króna, en forgangskröfum upp á 102 milljónir króna hefur verið hafnað.
Skiptastjórar munu ekki taka afstöðu til almennra krafna þar sem auðséð þykir að ekkert muni fást upp í þær. Allar eignir þrotabúsins fari í forgangskröfur, sem eru mestmegnis launakröfur, auk greiðslna til skiptastjóra sem rukka 29.500 krónur á tímann að viðbættum virðisaukaskatti.