Icelandic Glacial, framleiðandi drykkjarvatns, hefur tryggt sér nýtt fjármagn frá skuldabréfasjóði sem stýrt er af BlackRock´s US Private Credit. Lánið nemur 35 milljónum Bandaríkjadala eða tæplega 4,4 milljörðum króna og hefur forgang á aðra kröfuhafa Icelandic Glacial.
Jafnframt er hlutafjáraukningu í Icelandic Glacial, að fjárhæð 31 milljón Bandaríkjadala eða tæplega fjögurra milljarða íslenskra króna, til þess að renna styrkari stoðum undir áframhaldandi vöxt, lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Það er ákaflega ánægjulegt að fá þessa kröftugu innspýtingu úr skuldabréfasjóðum BlackRock sem er á meðal öflugustu sjóðastýringarfyrirtækja heims,“ segir Jón Ólafsson, stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial, í tilkynningu.
„Við höfum fylgst með þróun og vexti vörumerkisins í talsverðan tíma og erum staðráðin í því að leggja allt okkar af mörkum til þess að fjármagna og taka þátt í enn frekari umsvifum og markaðshlutdeild Icelandic Glacial í Bandaríkjunum og víðar um heiminn.“ Þetta er haft eftir Dan Worrel, framkvæmdastjóra hjá BlackRock US Private Credit og nýjum stjórnarmanni í Icelandic Glacial, af sama tilefni.
Icelandic Glacial vatnið er tekið úr stórri uppsprettu lindarvatns í Ölfusi, rétt utan Þorlákshafnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.