Telur sig ofsóttan af Sveini Andra

Skúli kveðst kveðst ekki trúa öðru en að Landsréttur snúi …
Skúli kveðst kveðst ekki trúa öðru en að Landsréttur snúi við dómi undirréttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Skúla Gunnars Sigfússonar, eiganda og stofnanda Subway á Íslandi, má rekja þyngri rekstur Stjörnunnar ehf., fyrirtækis í hans eigu, undanfarin misseri að hluta til ofsókna Sveins Andra Sveinssonar, skiptastjóra þrotabús EK1923 ehf. (EK). Vísar hann í máli sínu til málshöfðunar Sveins Andra Sveinssonar, skiptastjóra þrotabús EK1923 ehf. (EK) á hendur fasteignafélaginu Sjöstjörnunni ehf., sem jafnframt er dótturfélag Stjörnunnar ehf.

En hvernig kemur þetta mál til og hver er forsaga þess?

„Ég kem inn í rekstur heildsölunnar Eggerts Kristjánssonar í kringum áramótin 2013-'14 þegar félagið átti í talsverðum rekstrarörðugleikum. Það tókst því miður ekki að bjarga félaginu frá gjaldþroti, en heildsalan hafði átt í vandræðum um langt árabil. Þetta var þrátt fyrir að ég hefði lagt félaginu til hátt á annað hundrað milljónir króna á árinu 2014. Í ársbyrjun 2014 var tekin ákvörðun um að færa stóra fasteign í Skútuvogi 3 inn í fasteignafélag mitt, Sjöstjörnuna ehf. Gegn því að selja eignina í félagið mitt var eigendum ýmist greitt með yfirtöku skulda eða með útgáfu nýrra hlutabréfa í Sjöstjörnunni. Á þessum tíma hafði ég þó gert kaupsamning sem var undirritaður og þinglýstur en kom aldrei til framkvæmda enda var búið að skipta eigninni og samningurinn hafði því ekkert gildi. Sveinn Andri finnur hins vegar þennan samning, bókstaflega ofan í skúffu, og fer fram á að ég greiði aftur fyrir sömu fasteignina. Þetta getur náttúrlega engan veginn gengið enda á seljandinn ekki lengur fasteignina auk þess sem umræddur kaupsamningur fellur úr gildi við skiptingu enda jafngildir sú skipting því að greiðsla hafi farið fram.“

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús EK1923 ehf.
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús EK1923 ehf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæmir þrotabú án haldbærra skýringa

Skúli segist furða sig á því hversu auðveldlega Sveinn Andri kemst upp með að tæma þrotabú án nokkurra haldbærra skýringa. Nú þegar hafi Sveinn Andri greitt sjálfum sér um 120 milljónir króna úr þrotabúi EK, sem jafnframt þýðir að ekkert er eftir í búinu. Þá hafi hann rukkað tæpar 50 þúsund krónur á klukkustund fyrir vinnu skiptanna, en til samanburðar megi nefna að hann taki lægri taxta við skiptingu eigna WOW air, þar sem hann er annar skiptastjóra.

„Það vita allir hvernig Sveinn Andri er enda hefur þessi maður vaðið uppi í þjóðfélaginu og komist upp með ótrúlegustu hluti. Hann er til dæmis búinn að skrá á sig 2.400 klukkustundir vegna meintrar vinnu í tengslum við skiptin þannig að hann er búinn að hirða hverja einustu krónu sem til var í búinu. Þess utan tók hann það út í reiðufé og er hvergi nærri hættur. Nú bindur hann vonir við að Landsréttur staðfesti að ég eigi að greiða tvívegis fyrir sömu fasteignina til að hann geti náð enn meiri fjármunum úr búinu,“ segir Skúli.

Hvers vegna telur Skúli að Sveinn Andri fari fram með þessum hætti?

„Ég mun útskýra ástæðuna þar að baki nánar síðar. Það er ákveðinn kröfuhafi sem fór fram á að ég greiddi skuld beint við hann framhjá þrotabúinu við gjaldþrot EK. Ég hafnaði því eðlilega og þá sór hann að hann myndi ná fram hefndum.“

Ítarlegt viðtal við Skúla má finna í ViðskiptaMogga dagsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka