Gistinóttum fækkar á milli ára

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júlí dróst saman um 1% milli 2018 og 2019. Á hótelum og gistiheimilum varð aukning um 1,7%, á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður varð fækkun um 5,1%, og gistinóttum á öðrum tegundum gististaða fækkaði um 3,0%. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands. 

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 1.558.000 í júlí síðastliðnum, en þær voru um 1.576.000 í sama mánuði í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 716.800, þar af 492.400 á hótelum og 224.400 á gistiheimilum. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 599.000 og um 242.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 492.400, sem er 1% fjölgun frá sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru 5% færri en í júlí í fyrra, en þeim ýmist fjölgaði eða þær stóðu í stað í öðrum landshlutum. Um 47% allra hótelgistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, eða 232.500, en voru 243.500 í fyrra.

Á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2018 til júlí 2019, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.400.000, sem er 1% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Frétt Hagstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK