„Viðskiptastríð Trump ekki haft góð áhrif“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Viðnámsþróttur ferðaþjónustunnar virðist vera meiri en menn bjuggust við og hún er að ráða við aðstæður. Það er meira um sparnað í kerfinu og minna um innflutning og gengið hefur gefið aðeins eftir,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að séu meðal annars ástæður þess að hagvöxtur hefur ekki skilað sér í gengisfellingu eins og hefur yfirleitt alltaf gerst hér á landi í samtali við mbl.is.

Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði vexti bankans um 0,25%. Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða því 3,5%.Sam­kvæmt nýrri þjóðhags­spá Seðlabank­ans sem birt er í ág­ústhefti Pen­inga­mála er gert ráð fyr­ir 0,2% sam­drætti í ár sem er lít­il­lega minni sam­drátt­ur en spáð var í maí. Staf­ar það einkum af þrótt­meiri vexti einka­neyslu en fram­lag ut­an­rík­is­viðskipta er einnig hag­stæðara þar sem eft­ir­spurn bein­ist í meira mæli að inn­lendri fram­leiðslu og veg­ur það upp á móti meiri sam­drætti í ferðaþjón­ustu.

Svartsýni í alþjóðlegum efnahagsspám

Aukinnar svartsýni gætir í alþjóðlegum efnahagsspám samkvæmt þjóðhagsspá Seðlabankans.

„Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Viðskiptastríð Trump hafa ekki haft góð áhrif á utanríkisviðskipti. Það hefur verið þannig á heimsvísu að alþjóðaviðskipti hafa verið að reka hagvöxtinn áfram sérstaklega í nýmarkaðsríkjum,“ segir Ásgeir og bætir við:

„Eftirspurn er almennt að minnka og margir seðlabankar búnir að lækka vexti niður í núll prósent eða mínus þannig það er erfitt að hvetja áfram hagkerfi með því að lækka vexti. En bandaríska hagkerfið hefur gengið mjög vel eins og Trump hefur oft talað um.“

Spá færri störfum og auknu atvinnuleysi

Störf­um fækkaði á öðrum fjórðungi árs­ins og at­vinnu­leysi jókst nokkuð. Það var að meðaltali 3,8% á fjórðungn­um og hef­ur ekki verið meira frá ár­inu 2015.

Áfram er spáð auknu atvinnuleysi og fækkun starfa í þjóðhagsspá. Ásgeir segir það eðlilegt að einhverju leyti miðað við aðstæður en að vel hafi gengið að takast á við stór áföll.

„Það er ein grein, ferðaþjónustan, sem er að losa sig við fólk. Við sáum að heilt flugfélag sagði upp öllu starfsfólki en þessu fólki er að ganga tiltölulega vel að finna sér önnur störf og stað í hagkerfinu,“ útskýrir seðlabankastjóri.

Atvinnuleysi er ekki neitt í erlendum samanburði segir Ásgeir.
Atvinnuleysi er ekki neitt í erlendum samanburði segir Ásgeir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirtækin bregðast vel við aðstæðum

Hann bætir því við að fyrirtækin í landinu séu að bregðast nokkuð vel við minni eftirspurn og eyðslu. „Fyrstu áhrif eru að fólk í ferðaþjónustu hættir, önnur áhrif eru að eyðsla minnkar í hagkerfinu. Við erum að einhverju leyti að sjá fyrirtækin í landinu bregðast við með hagræðingu,“ útskýrir Ásgeir og bætir við:

„Hér áður fyrr sögðu fyrirtæki ekki starfsfólki upp heldur hækkuðu verð. Núna eru fyrirtæki ekki að hækka verð heldur fara í gegnum starfsemina hjá sér og hagræða. Mörg fyrirtæki eru að taka upp tæknilausnir og sjálfsvirkni. Atvinnuleysi er samt ekki mikið og í erlendum samanburði myndi þetta ekki teljast neitt.“

Verðbólga hjaðnar hraðar en spáð var

Í þjóðhagsspánni segir að við séum að nálgast botn hagsveiflu. Ásgeir segir margt jákvætt að gerast sem ýti undir það, meðal annars lægra olíuverð og hærra fiskverð. „Ef allt gengur eftir þá getum við jafnvel verið að botna núna í vetur.“

Verðbólga hefur verið að hjaðna hraðar en búist var við og stafar það af ýmsum þáttum. Meðal annars af því að fasteignamarkaður hefur verið að kólna og gengis- og launahækkanir virðast ekki vera skila sér í hærra verði hjá fyrirtækjum í landinu.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands fór …
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands fór yfir nýja þjóðhagsspá á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viljum helst ekki sjá miklar launahækkanir

„Það voru gerðir samningar á almennum vinnumarkaði í vor og þeir samningar styðja við stöðugleika. Ríkisstarfsmenn og sérfélög eru núna eftir. Á þessum stað í hagsveiflunni þá viljum við helst ekki sjá miklar hækkanir á launakostnaði og viljum að vinnumarkaðurinn sé tiltölulega samhentur í því sem hann er að gera,“ segir Ásgeir um komandi vetur.

Hann segir best ef að sáttin sem náðist í vor haldi áfram en bætir þó við að seðlabankinn taki ekki afstöðu til krafna hjá einstaka hópum í kjarasamningum.

Gengur vel að koma sér inn í nýtt starf

Á persónulegum nótum segir Ásgeir að það gangi vel að koma sér fyrir í nýju starfi og takast á við nýjar áskoranir. „Þetta er dálítil breyting en það eru allir tiltölulega góðir við mig hér í húsinu og mér líður vel,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK