Samanlagður hagnaður fasteignafélaganna Regins, Reita og Eikar nam 5,5 milljörðum króna eftir skatt á fyrstu sex mánuðum ársins í samanburði við 2,8 milljarða króna fyrir sama tímabil í fyrra.
Rekstrarhagnaður félaganna fyrir matsbreytingu nam samanlagt 9,8 milljörðum króna og jókst um 13,12%.
Í uppgjörum félaganna vöktu rekstrarhorfur þeirra athygli en að mati Þorsteins Andra Haraldssonar hjá greiningardeild Arion banka voru skilaboð stjórnenda félaganna eftir hálfsársuppgjör þeirra nokkuð ólík. „Reitir sendu frá sér afkomuviðvörun þar sem félagið býst við því að fækkun ferðamanna og þyngri rekstrarhorfur í mörgum atvinnugreinum muni hafa neikvæð áhrif á útleigu og innheimtu viðskiptakrafna. Þannig býst félagið við auknum vanskilum eftir því sem líða tekur á árið,“ segir Þorsteinn. „Reginn færði einnig niður afkomuhorfur sínar, þó á öðrum forsendum en Reitir. Hvorki stjórnendur Regins né Eikar hafa endurómað skilaboð Reita um að vanskil séu að aukast verulega í sínum rekstri,“ segir Þorsteinn í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.